Skýrsla auðlindanefndar

Þriðjudaginn 13. febrúar 2001, kl. 14:36:17 (4504)

2001-02-13 14:36:17# 126. lþ. 68.91 fundur 291#B skýrsla auðlindanefndar# (umræður utan dagskrár), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 126. lþ.

[14:36]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Út af fyrir sig er eðlilegt að taka til umræðu það mikilvæga mál sem við erum að ræða í dag og ég þakka hv. frummælanda fyrir að hafa haft frumkvæði að því. Við höfum búið við kerfi sem við höfum verið að reyna að betrumbæta í gegnum árin. Okkur hefur tekist misjafnlega við það, oftast sæmilega og stundum vel en stundum illa. Menn hafa líka umgengist þetta kerfi með mismunandi hugsunarhætti. Ég tel að Norðlendingar hafi umgengist þetta kerfi með allt öðrum hætti en t.d. Vestfirðingar og að því leyti til stendur Norðurland betur en Vestfirðir núna.

Skýrsla auðlindanefndar er fyrst og fremst safn hugmynda. Ég get t.d. fallist á hugmyndina um ákvæði í stjórnarskrá, þó með hliðsjón af hefðarrétti sem sveitarfélögin kunna að hafa unnið sér. Ég hef alltaf verið andvígur veiðileyfagjaldi. Það er fyrst og fremst skattur á sjávarbyggðir og landsbyggðarskattur. Ég gæti miklu frekar fallist á einhverja fyrningarleið eða einhverja útfærslu á fyrningarleiðinni.

Í síðustu lotu hafa vegist á hagsmunir útgerðar og sjómanna og hámarksarður hlutabréfaeigenda því að eignarhaldið hefur færst mjög mikið til í þessari grein. Hagsmunir fiskverkafólks og hagsmunir sveitarfélaganna þar sem fiskverkafólkið hefur búið eða hagsmunir útgerðarstaðanna hafa verið bornir fyrir borð og við höfum fyrir augum okkar sár dæmi um einmitt þetta.

Í Bolungarvík og Vestmannaeyjum ríkir eins og stendur allt of mikið atvinnuleysi. Þar hafa orðið áföll og hópur af fólki er atvinnulaus. Einungis þriðjungurinn af botnfiskafla sem berst að landi í Bolungarvík er unninn á staðnum. Tveir þriðju hlutar aflans eru keyrðir í burtu. Í Vestmannaeyjum er sagan svipuð. Einungis 37% af þeim botnfiskafla sem Vestmanneyingar flytja að landi er unninn í Vestmannaeyjum. 34% fer beint út í gámum.

Menn hafa verið að hugsa um hámarksarð útgerðar og hámarksarð sjómanna en það þarf ekki að fara saman við hagsmuni sveitarfélaga eða hagsmuni fiskverkafólks í landi. Breyttir útgerðarhættir hafa líka stuðlað að óhagstæðri byggðaþróun og flutningum fólks til höfuðborgarsvæðisins. Þegar heimilisfaðirinn er langdvölum úti á sjó í þessum löngu úthöldum er freisting fyrir fjölskylduna að flytja sig til.

Fiskstofnarnir eru eign íslensku þjóðarinnar, ekki eign útlendinga. Menn hafa verið að snúa út úr þessu hugtaki en þeir eru ekki eign útlendinga. Útgerðirnar hafa veiðiheimildirnar að láni. Þær hafa ekki fengið þær til varanlegrar eignar. Skotar áttu við mikinn byggðavanda að stríða. Þeir festu hluta kvótans á sveitarfélögin og sneru byggðaþróuninni við. Ég tel að við ættum að íhuga svipaða leið, fyrna eitthvað og taka einnig væntanlega aukningu og festa á sveitarfélögin.