Skýrsla auðlindanefndar

Þriðjudaginn 13. febrúar 2001, kl. 14:40:38 (4505)

2001-02-13 14:40:38# 126. lþ. 68.91 fundur 291#B skýrsla auðlindanefndar# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 126. lþ.

[14:40]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Sverri Hermannssyni, fyrir að taka skýrslu auðlindanefndar til umræðu, álitsgerð sem ásamt fylgiskjölum fyllir væna bók. Hér er tekið á málum í sögulegu, efnahagslegu og jafnvel heimspekilegu ljósi og sannast sagna kom mér á óvart hve sterkur frjálshyggjutónn er í skýrslunni. Hér segir t.d. á þá leið að eignarréttarskipun eða fullkominn séreignarréttur öllu heldur sé líklegastur til að tryggja þjóðhagslega bestu nýtingu þeirra umhverfisgæða sem eignarrétturinn nær til. Í niðurstöðum segir að nokkuð hafi þokast í þá átt hér á landi á undanförnum árum að fella umhverfisgæði undir séreignarskipan. Menn fagna þessu sérstaklega.

Ég man ekki betur en við værum nýlega að samþykkja lög sem voru mjög umdeild og gengu í þá átt að færa auðlindir þjóðarinnar, t.d. auðlindir í jörðu í séreignarform og mjög hörð gagnrýni var gegn þessu. Mér finnst þessi hugsunarháttur líka byggja á tímaskekkju frá þeim tíma þegar bóndinn var á sínum stað eða útgerðarmaðurinn og ekki hreyfanlegur. Nú er fjármagnið hreyfanlegt. Það sem menn hafa einmitt áhyggjur af er að séreignarfyrirkomulagið stuðli að því að gengið sé á gæði náttúrunnar en hún sé ekki varin sem skyldi.

Þessi skýrsla tekur til auðlinda almennt. Hins vegar er eðlilegt að menn staðnæmist sérstaklega við sjávarútveginn í ljósi þess hvernig núverandi fiskveiðistjórnarkerfi hefur leikið mörg byggðarlög í landinu og hvert misrétti hefur þrifist í skjóli þess. Hæstv. sjútvrh. benti réttilega á að mörg sjávarútvegsfyrirtæki ættu við miklar skuldir að stríða og vildi hann vara við því að setja á þau auknar álögur.

Staðreyndin er hins vegar sú að útgerðin býr við miklar álögur og þeir sem hafa ekki fengið kvótann eða veiðiheimildir á silfurfati þurfa iðulega að greiða fyrir slík gæði en ekki ríkinu eða handhöfum almannavalds heldur einstaklingum. Við búum því við slíkt kerfi og Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur lagt fram á Alþingi tillögur til að uppræta þetta misrétti.

Við lögðum fram tillögu um bann við leigu á kvóta. Við lögðum einnig fram róttæka tillögu um breytingar á þessu kerfi með sólarlagsákvæðum þannig að núverandi kvótakerfi, sem heimilar brask og verslun með kvóta, verði lagt af og ný skipan tekin. Þar er í fyrirrúmi hjá okkur að tryggja hag sjávarbyggðanna og tryggja vistvænar smábátaveiðar.

Ég tek undir það sem kom fram í máli hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar að við búum nú við kerfi sem má engan veginn framlengja og við eigum að skapa um það sátt á Alþingi að finna leið út úr þessum vanda. Það er góðra gjalda vert að reiða fram skýrslu af þessu tagi en hér skortir engu að síður þá stefnu sem þarf að taka til að leiða okkur frá því ófremdarástandi sem engin þjóðarsátt ríkir um.