Skýrsla auðlindanefndar

Þriðjudaginn 13. febrúar 2001, kl. 15:02:21 (4510)

2001-02-13 15:02:21# 126. lþ. 68.91 fundur 291#B skýrsla auðlindanefndar# (umræður utan dagskrár), Flm. SvH
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 126. lþ.

[15:02]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég gat þess og ég hygg að við getum verið sammála um það að þetta er eitt mesta örlagamál íslensku þjóðarinnar. En hvar skyldu foringjar stjórnarliða vera staddir? Hvaða virðingu sýna þeir hinu háa Alþingi með fjarveru sinni? Það getur vel verið að hæstv. utanrrh. treysti sér ekki til að vera hér ef hann skyldi verða spurður út úr um það hvernig hann hefur mulið sjávarauðlindina undir fjölskyldufyrirtæki sitt. En þetta er víst að dómi forsetadæmisins vítavert orðalag.

Ég skal að gefnu tilefni upplýsa það sem kom fram í máli hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur, að ég er í grundvallaratriðum sammála því sem hér segir í álitsgerð auðlindanefndar um hið nýja stjórnarskrárákvæði sem þar er lagt til. En ekki einu sinni um þetta atriði varð öll nefndin sammála. Byltingarsinninn Ragnar Árnason gerir sérstaka bókun í þessu efni og er andvígur ákvæðum í stjórnarskrá sem lúti að því að náttúruauðlindir megi ekki selja eða láta af hendi til einstakling eða lögaðila. Það er skýr fyrirvari en í umræðum um þessa skýrslu láta menn eins og þeir hafi ekki lesið hana.

Ég skil vel að þingmaður ættaður úr Vestmannaeyjum sé órólegur undir þessari umræðu og því að honum skyldi verða það á að skrifa upp á þetta dæmalausa plagg. Hann er kannski ekki fulltrúi allra Vestmanneyinga, kannski ekki launþeganna þar sem þurfa að vinna í fiskvinnslunni eða sjómannanna. Það er svo annað mál.

Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson talaði um auðlindarentuna og hagkvæmnina sem yrði að vera til svo hægt væri að standa undir henni og það kemur í ljós að Sjálfstfl. er líka á móti þessari leið og þá vitum við hvað við tekur því alltaf lætur Framsfl. teyma sig á foraðið þótt ég sé hins vegar mjög ánægður með þau orð sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson lét falla.

Við skulum víkja að hagkvæmninni. Hver er hún þegar það kostar 3 kr. á kg fyrir krókabátana að sækja fiskinn, mesta úrvalsefni sem gefst og 30 kr. fyrir stórsköfuna sem er búin að slétta Halann eins og stofugólf? Það er víða hægt að bera niður þegar menn tala um hagkvæmni í þessu sambandi.

Hv. þm. Tómas Ingi Olrich, sérstakur þingmaður Samherja á Akureyri, talaði um að hjá öðrum þjóðum væru reiddir fram stórkostlegir styrkir til sjávarútvegsins, því væri ekki að heilsa hér. Hann lét þess auðvitað ekki getið að stórfurstarnir fá þetta allt saman gefins. Hvað er að í Hrísey? Það er verst að hæstv. forseti vor er ekki viðstaddur en ég hef lesið að úr mundi rakna fyrir Hríseyingum ef leyfi fengist til að stunda laxeldi í Eyjafirði því að upplagt væri að leggja þann afla á land, eftir 5--6 ár þegar hann er vaxinn, til vinnslu í Hrísey. Hins vegar er það talið beint afbrot að sækja aflaheimildir annað því að þá væri verið að taka þær af öðrum. Það minnir á það sem Gróa sagði: Ólyginn sagði mér, en ég hafði áður sagt honum. Það var nefnilega búið að gefa þetta áður.

Hvað um hina dreifðu eignaraðild? Ekki átti það að heita að vera gjafafé þegar menn voru að kaupa í Samherja fyrir 3 milljarða. Af hverjum var keypt? Á hverja dreifðust þeir 3,1 milljarður, með leyfi? Hjón og tvö börn. Það er rétt að við óbreytt ástand verður ekki unað en að því stefna þessir háu herrar.

Ég vil aðeins að lokum, herra forseti, þakka fyrir þessa umræðu. Hún hefur leitt ýmislegt í ljós og sveigt þá sem maður átti ekki von á til fylgis við gjörbreyttar áherslur í þessu efni. Frá því að kvótakerfið hélt innreið sína í íslenskum sjávarútvegi undir forustu stórkvótagreifans Halldórs Ásgrímssonar, hæstv. utanrrh., hefur LÍÚ-klíkan og Kristján Ragnarsson ráðið öllu um skipan og framkvæmd þeirra mála eins og fyrrv. forsrh. Steingrímur Hermannsson staðfestir rækilega í endurminningum sínum.