Skýrsla auðlindanefndar

Þriðjudaginn 13. febrúar 2001, kl. 15:07:37 (4511)

2001-02-13 15:07:37# 126. lþ. 68.91 fundur 291#B skýrsla auðlindanefndar# (umræður utan dagskrár), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 126. lþ.

[15:07]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson, þingflokksformaður vinstri grænna, sagði að skapa þyrfti sátt um sjávarútvegsmálin. Um það snýst þessi umræða, um það snýst þessi skýrsla og um það snýst vinna nefndar sem tók við málinu í framhaldi af niðurstöðu auðlindanefndarinnar. Sú vinna mun væntanlega koma fram í þingmáli hvort sem það verður á þessu þingi eða næsta. Um það get ég ekki sagt. Það mun síðan fara til hv. sjútvn. þannig að Alþingi mun fá málið til umfjöllunar á endanum eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson ætti að vita mætavel.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon segir að mikið sé óunnið en hann vill fá að sjá niðurstöðuna strax. Hann er formaður vinstri grænna. En einmitt sá flokkur sem þeir fara fyrir, hv. þm. Ögmundur Jónasson og Steingrímur J. Sigfússon, á mann í þessari nefnd. Það er hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson og hann segir líka að mikil vinna sé eftir. En þeir hafa þó möguleika á að taka þátt í vinnunni og leggja hönd á plóginn. Ég ætla að vona að það muni ekki standa upp á þá að sinna þeirri vinnu og hjálpa til við að ná sáttinni.

Hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir nefndi það að ég hefði ekki minnst á stjórnarskrána í ræðu minni. Það er rangt. Ég sagði hins vegar að stjórnarskrána og hlutverk hennar í þessu ætti að skoða almennt en ekki sérstaklega bara vegna sjávarútvegsmálanna. Ég held að hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir leggi ofuráherslu einmitt á þann hluta þessa máls, sem sennilegast verður ekki afgreiddur á sama tíma og breytingar á sjávarútvegsstefnunni vegna þess hvernig breytingum á stjórnarskránni er hagað, til að undirbúa það að geta hlaupist undan merkjum, undan sáttinni og þykir mér það mjög miður. (Gripið fram í.)

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson saknaði tillagna (ÖS: Stefnu.) eða stefnu frá hæstv. ráðherra. (Gripið fram í.) en umræðan snýst um annað. Umræðan er um auðlindanefndarskýrsluna og það sem þar kemur fram. Fyrir það var ég að svara og eins og fram hefur komið er framhald á þeirri vinnu í nefnd á vegum sjútvrh. Þar á flokkur hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar einnig fulltrúa þannig að þeir geta lagt hönd á plóginn og vonandi þarf ekki að bíða eftir því að þeir leggi í púkkið til þess að sáttin náist.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson vitnar í ummæli höfð eftir mér í dagblaðinu Degi. Hann leyfir sér að sjálfsögðu, eins og virðist vera plagsiður, að taka ummælin úr samhengi og vitna einungis í helminginn af því sem sagt er. Í þessu viðtali kemur fram að ég vilji auðvitað sjá niðurstöðu í þessu máli sem fyrst því að meðan við eyðum tímanum í það þá sinnum við ekki öðrum mikilvægum málum. Málið er hins vegar ekki þannig vaxið að þó það tefjist örlítið sé einhver voði fyrir dyrum. Við erum ekki með fiskveiðistjórnarkerfið í einhverjum stórkostlegum vandræðum. Markmiðið, eins og fram hefur komið hjá mörgum þingmönnum í umræðunni, er að ná meiri sátt í málinu. Markmiðið er ekki að laga kerfi sem í grundvallaratriðum er til óþurftar. Ég endurtek það, svo að hv. þm. Össur Skarphéðinsson misskilji það ekki, að ég vil fá niðurstöðu í málið sem fyrst. Það fer auðvitað eftir því hvernig miðar í þeirri nefnd sem m.a. hans flokkur á fulltrúa í.

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson heldur því fram, eins og reyndar kom fram hjá fleiri þingmönnum, að ég og hv. þm. Sverrir Hermannsson veljum úr skýrslunni það sem okkur hentar best. Þetta er 200 blaðsíðna skýrsla og ég er að reyna að greina niðurstöður hennar. Á ég að fara yfir hvert einasta orð í skýrslunni? Ég reyni að greina meginniðurstöðu skýrslunnar, mikilverðustu atriðin í skýrslunni sem varða sjávarútveginn, atriðin sem sátt virðist um. Ég get ekki betur séð en að þegar hv. þm. Lúðvík Bergvinsson fer sjálfur að greina skýrsluna þá komist hann að sömu niðurstöðu og ég, alla vega mjög svipaðri niðurstöðu. Ég trúi því að hann muni standa við sáttina sem náðist við gerð skýrslu auðlindanefndar.

Herra forseti. Þegar stefnan og tillögur hæstv. ráðherra og ríkisstjórnarinnar koma fram þá verða þær byggðar á niðurstöðum skýrslu auðlindanefndar. Ég treysti því þeir aðilar sem að skýrslunni stóðu standi að þeirri sömu niðurstöðu og hlaupist ekki undan þeim merkjum sem þeir hafa reist.