Dýrasjúkdómar

Þriðjudaginn 13. febrúar 2001, kl. 16:02:07 (4523)

2001-02-13 16:02:07# 126. lþ. 68.3 fundur 291. mál: #A dýrasjúkdómar# (sjúkdómaskrá o.fl.) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 126. lþ.

[16:02]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þetta er í svo andlægum stíl að ég ætla að reyna að trufla það ekki, enda ekki mikið tilefni til svara af minni hálfu. Ég get út af fyrir sig tekið undir það að ég hef haft gaman af því að heyra ýmsa tala um innflutning á búvörum núna síðustu mánuðina miðað við það sem áður hefur verið. Ég fagna því. Ég held að þessi umræða hafi þrátt fyrir allt leitt það gott af sér að menn eru minntir á hvað þeir hafa í innlendu framleiðslunni sem menn eru tiltölulega öruggir með og sem betur fer hefur enn ekkert komið fram sem gefur okkur tilefni til að óttast. Og það eru mikil verðmæti og mikil gæfa í því fólgin. Þess þá heldur ber okkur að fara varlega og með ýtrustu varúð. Við verðum þá líka um leið að gera okkur grein fyrir því að við höldum þar á verðmætu fjöreggi sem ekki má kasta rýrð á, ekki gera neitt sem grefur undan trúverðugleikanum.

Ég er síður en svo að gera lítið úr lögfræðilegum störfum Eiríks Tómassonar, það má enginn skilja það svo. Ég var eingöngu að draga athyglina að því að það er út af fyrir sig ekki endilega eina aðferðin sem menn hafa til að gera úttekt á framkvæmd í tilteknum málaflokki að framkvæmdarvaldið sjálft velji sér og ráði einn tiltekinn lögfræðing til að skoða sjálft sig. Það eru auðvitað ýmsar aðrar leiðir mögulegar og færar í því eins og t.d. sú sem ég var að hvetja til, a.m.k. jafnframt, að þingnefndin fari á sjálfstæðum og óháðum forsendum yfir það sem þarna er að skoða í þessum efnum.

Það er auðvitað löng saga af alls konar tilraunum manna til að flytja ýmislegt inn. Ég man eftir þessum rotmassamálum og stóð m.a. í að stöðva innflutning á rotmassa. Og það getur vel verið að þurft hafi að skjóta einhverri sterkari lagastoð undir það síðar meir og ég þakka góðum mönnum fyrir það sem þeir hafa gert. En ég man þó svo mikið að sá innflutningur sem var á rotmassa og byggði m.a. á húsdýraúrgangi frá Bretlandi var stöðvaður í minni tíð.