Lax- og silungsveiði

Þriðjudaginn 13. febrúar 2001, kl. 16:50:58 (4534)

2001-02-13 16:50:58# 126. lþ. 68.4 fundur 389. mál: #A lax- og silungsveiði# (rekstrarleyfi, gjaldtaka, fiskeldisnefnd o.fl) frv., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 126. lþ.

[16:50]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil þakka sérstaklega fyrir þetta frv. til laga um breyting á lögum um lax- og silungsveiði sem hér liggur fyrir. Segja má að þetta sé langþráð mál og hefðu þessi ákvæði, sem eru þó þetta skýr, betur legið fyrir þegar þau álitamál komu hér upp fyrr á þessu ári sem mikill styr hefur staðið um. Segja má að með þessu frv. séu sett mun skýrari og ítarlegri ákvæði um fiskeldi og hafbeit en áður hafa verið í íslenskum lögum. Auk þess er kveðið á um leyfiskostnað og eftirlit og áætlað að innheimta þarna gjöld sem muni á árinu 2002 skila 8 millj. kr. sem standa eiga undir kostnaði af eftirliti. Mér finnst þetta allt í góðum anda sem við höfum rætt hér fyrr í dag.

Það eru ýmis ágæt nýmæli í þessu frv. en þó finnst mér margt þar gefa tilefni til að fara mjög nákvæmlega yfir það í hv. landbn. Þó verð ég að segja að ég mun beita mér fyrir því að þetta mál verði afgreitt sem fyrst vegna þess að ég tel að mikil bót verði að því. Ég vona að það gefist tækifæri til þess hjá hæstv. ráðherra að bíða með frekari afgreiðslur og leyfisveitingar á rekstrarleyfum meðan þetta mál er til umfjöllunar í þinginu svo við stöndum ekki frammi fyrir því, loksins þegar lögin eru tilbúin, að búið verði að fylla alla firði af norskum laxi og þá verði um að ræða leyfi sem mjög snúið verði að afturkalla.

Helstu nýmæli í þessu frv. virðast mér að útgáfa rekstrarleyfa færist til landbrh. Samkvæmt gildandi löggjöf á veiðimálastjóri að gefa út þessi rekstrarleyfi. Það má svo sem ræða það, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gerði hér, hvort sé heppilegra. Ég tel hins vegar að það sé heppilegra að hafa málið hjá ráðherra, sérstaklega þegar við bætist að þegar farið er með umsóknir um rekstrarleyfi þá ber landbrh. að leita umsagna víða, t.d. hjá dýralækni fisksjúkdóma, fiskeldisnefnd, fisksjúkdómanefnd og veiðimálastjóra auk veiðimálanefndar, Veiðimálastofnun o.s.frv. Þetta er nokkuð ítarleg upptalning. Í ákvæði þessu er einnig upptalning á ýmsum þeim gögnum sem ber að skila með slíku rekstrarleyfi. Mér finnst, þegar ég les þetta í gegn, alls ekki borðleggjandi að ýmislegt hefði farið í gegn, sem þótt hefur viðunandi hingað til eða á liðnu ári, ef þessi lög hefðu verið í gildi.

Þessi rekstrarleyfi skulu gefin út af landbrh. til fimm ára. Þó hefur hæstv. landbrh. möguleika til að gefa leyfið út í styttri tíma. Segja má, og hefur verið nefnt fyrr í umræðunni, að landbrh. hefur víðtækar heimildir til að setja reglugerðir og aðrar stjórnvaldsreglur samkvæmt þessum lögum. Það er náttúrlega eitt af því sem þarf að athuga í hv. nefnd, hvort ástæða er til að takmarka eitthvað þessar reglugerðarheimildir.

Það kemur líka fram hér að það er óheimilt að gefa út rekstrarleyfi fyrr en ákvörðun um matsskyldu eða úrskurður um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir. Ég fagna því auðvitað sérstaklega en þar er vísað til laga nr. 106/2000.

Það er líka sett undir ákveðna brotalöm sem verið hefur í öðrum lögum sem gilt hafa um veiði, þ.e. að framsal er bannað samkvæmt þessum lögum. Frjáls leiga og veðsetning á rekstrarleyfi er bönnuð en þó kemur svolítið sérkennileg setning í lagaskýringum:

,,Þetta ákvæði kemur þó ekki í veg fyrir að eigendaskipti geti orðið að fiskeldis- eða hafbeitarstöð ef sami lögaðili með sömu kennitölu er áfram handhafi rekstrarleyfisins.``

Þarna eru sem sagt einhver kennitöluviðskipti leyfileg og ég verð að segja að þetta er t.d. ein af þeim smugum sem mér finnst við þurfa að kanna náið í hv. nefnd.

Í frv. er einnig heimild til gjaldtöku sem er líka nýmæli. Þar er ýmislegt fleira sem ég skauta yfir, ekki síst það sem komið hefur fram fyrr í umræðunni. Í 4. gr. er það nýmæli að fiskeldisstöðvum sem missa út eldisfisk sé skylt að tilkynna það embætti veiðimálastjóra og að ítrekaðar slysasleppingar geti leitt til endurskoðunar á rekstrarleyfi og jafnvel fellt það úr gildi. Einnig er tiltekið í þessu ákvæði að ef fiskeldisstöð hefur ekki byrjað veiði innan 12 klukkustunda eftir að hún missir út eldisfisk geti veiðimálastjóri gefið út almenna heimild til veiði á svæðinu með sömu skilyrðum og gilda um stöðina sjálfa. Þarna finnst mér að geti hugsanlega orðið mikið líf í tuskunum, þ.e. ef fiskeldisstöðin getur ekki sannað að hún sé byrjuð veiði innan þessara 12 tíma. Þá geti nú ýmsir brugðið undir sig betri fætinum með veiðistangirnar sínar til að veiða út á þetta ákvæði.

Í frv. er og ákvæði sem ég fagna ákaflega, að ef fiskeldis- eða hafbeitarstöð hefji ekki starfsemi í samræmi við rekstraráætlun, innan 12 mánaða eftir útgáfu rekstrarleyfis, sé landbrh. heimilt að fella rekstrarleyfið úr gildi. Það hefur verið mikil umræða um að ákveðnir aðilar séu að slá sig niður á alla mögulega staði í kringum landið og sæki þar um rekstrarleyfi og hyggist einhvern tíma í fjarlægri framtíð eða kannski aldrei hefja rekstur. Mér finnst þetta ákvæði koma nokkuð vel í veg fyrir slíkt.

Það stendur hér í b-lið 5. gr., það tengist 62. gr. laganna, að embætti veiðimálastjóra skuli hafa eftirlit með starfsemi fiskeldis- og hafbeitarstöðva. Það hvarflar að mér hvort ekki geti orðið árekstur þarna, við það sem getið er um í 7. gr., um þessa sérstöku nefnd, fiskeldisnefnd sem sæti eiga í fjórir menn skipaðir af landbrh. til fjögurra ára í senn. Hlutverk þeirrar nefndar er að vera til ráðgjafar og taka þátt í stefnumótun um fiskeldi bæði á sjó og landi. Mér finnst að þarna geti hlutverkin skarast nokkuð en það stendur líka í greinargerð eða lagaskýringum að nefndinni sé ætlað að tryggja samráð og samræma sjónarmið landbrn. og sjútvrn., m.a. um fiskeldi á landi og í sjó.

Í c-lið sömu greinar er talað um að lögfest sé að kynbættan eldislax megi eingöngu nýta til fiskeldis og bann er lagt við því að hann sé nýttur til fiskiræktar eða hafbeitar. Þá vísað til þess að það sé stórvarasamt, hann geti sloppið og jafnvel kynblandast öðrum tegundum. Ég talaði fyrr í dag við fiskeldisfræðing sem taldi miklar líkur á að einmitt þetta hefði þegar gerst, þessi lax hefði sloppið og líkur væru á að kynblöndun hefði orðið.

Ég vil ítreka að það er mikilvægt að þetta frv. fái góða og hraða afgreiðslu hjá hv. landbn. Ég vil fara þess að leit við hæstv. landbrh. að meðan málið er til umfjöllunar í nefndinni verði ekki veitt frekari leyfi til fiskeldis á laxi af erlendum stofni.