Lax- og silungsveiði

Þriðjudaginn 13. febrúar 2001, kl. 17:17:51 (4540)

2001-02-13 17:17:51# 126. lþ. 68.4 fundur 389. mál: #A lax- og silungsveiði# (rekstrarleyfi, gjaldtaka, fiskeldisnefnd o.fl) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 126. lþ.

[17:17]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Halldór Blöndal, virðulegur forseti vor, fór um víðan völl í umræðunni og lagði ekki síst út af utandagskrárumræðu sem var á dagskrá fyrr í dag og eins fundi sem var norður í Hrísey fyrir nokkru síðan. Ég tók eftir því að starfandi forseti sýndi mikið umburðarlyndi og gerði engar athugasemdir við það þó að ræðumaður viki talsvert frá dagskrármálinu. Ég tel það út af fyrir sig vera umburðarlynda og sanngjarna fundarstjórn.

Annað vil ég segja, að mér þætti betra að hv. þm. nafngreini þá stjórnmálamenn sem hann er svona að láta liggja að að hann sé að fjalla um þegar hann talar um að þingmaður hafi sagt þetta hér eða hinn hafi sagt annað þar. Ég var að giska á að í einu tilviki ætti hv. þm. Halldór Blöndal við mig og í öðru tilviki hafi hann átt við hv. þm. Kristin H. Gunnarsson, sem ég held að hafi nefnt þessa 10% tölu í umræðum fyrr í dag. Mér finnst betra fyrir málefnaleg skoðanaskipti og meiri reisn yfir því að menn nafngreini þá einstaklinga og vitni beint til þeirra sjónarmiða sem þeir hafa sett fram, enda er þá væntanlega yfirleitt um að ræða einstaklinga sem eru menn til að standa við skoðanir sínar.

Hv. þm. Halldór Blöndal nefndi laxeldi í Eyjafirði og spurði hvort við værum tilbúnir til að heimila það í stórum stíl til þess að hægt væri að vinna úr fiskinum í Hrísey. Hv. þm. veit kannski ekki hvers vegna þær hugmyndir m.a. voru lagðar til hliðar. Það var vegna þess að aðrir hagsmunir sem það hefði rekist á töldust vera svo ríkir að það væri ekki réttlætanlegt, m.a. ört vaxandi lúðueldi og miklar vonir sem bundnar eru við það, sem sækir fæðu í Eyjafjörð fyrir ungviðið og auðvitað ýmsir aðrir hagsmunir. Náttúrulegu laxastofnarnir víða um land eru aðrir hagsmunir sem verður að líta til.

Það sem ég hef fyrst og fremst verið talsmaður fyrir er að menn fari varlega og vandi stefnumótun og ákvarðanatöku. Mér fannst einmitt hv. þm. Halldór Blöndal koma hér af gamla skólanum og vilja ryðja öllu slíku til hliðar af því að nú væru mögulega í sjónmáli störf og einhver umsvif í atvinnurekstri og þá ætti að ýta öllu svona umhverfiskjaftæði til hliðar. Eða hvert er hv. þm. að fara? Vill hann viðhafa venjuleg varúðarsjónarmið í þeim efnum eða ekki?