Lax- og silungsveiði

Þriðjudaginn 13. febrúar 2001, kl. 17:20:09 (4541)

2001-02-13 17:20:09# 126. lþ. 68.4 fundur 389. mál: #A lax- og silungsveiði# (rekstrarleyfi, gjaldtaka, fiskeldisnefnd o.fl) frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 126. lþ.

[17:20]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Mér þótti athyglisvert hjá hv. þm. að ekki megi ræða stefnur stjórnmálaflokka án þess að nafngreina sérstaklega hvaða þingmaður viðkomandi stjórnmálaflokks hafi orðað hlutina. En það er rétt sem hv. þm. sagði. Hann hafði orð á því í Hrísey að rétt væri að taka 1% af aflaheimildum allra skipa á hverju ári og af því leiðir að á tíu árum, væri sú tillaga samþykkt, mundi fækka um einn togara á Akureyri ef þeir eru tíu.

Í annan stað vil ég segja að Stofnfiskur var á sínum tíma styrktur mjög og settur á fót meðan hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon var landbrh. ef ég man rétt. Þau rök lágu því til grundvallar að nauðsynlegt væri að verja af ríkisins hálfu mjög miklum fjármunum, verulegum fjármunum, til framræktunar á norskum laxi til að gera það mögulegt að hann yrði ræktaður við strendur landsins og á landstöðvum.

Nú er á hinn bóginn komið í ljós að hv. þm. hefur miklar efasemdir um að þarna hafi verið stigið rétt skref. Ekki gat ég heyrt annað á ræðu hans nú en hann vilji hægja mjög á ferðinni og hvetja til þess að leyfi til laxeldis í Mjóafirði verði ekki gefið nú á þessum vikum, sem auðvitað þýðir að þessi rekstur hlýtur þá að tefjast um eitt ár a.m.k. Það er með vissum hætti innlegg í byggðamál Austfirðinga.