Lax- og silungsveiði

Þriðjudaginn 13. febrúar 2001, kl. 17:41:23 (4546)

2001-02-13 17:41:23# 126. lþ. 68.4 fundur 389. mál: #A lax- og silungsveiði# (rekstrarleyfi, gjaldtaka, fiskeldisnefnd o.fl) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 126. lþ.

[17:41]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég gerði svo sem ráð fyrir því að hæstv. ráðherra hefði leitað sátta og í þessu kæmi fram ýmislegt sem náðst hefði eftir mikla umræðu. Ég er hins vegar á þeirri skoðun og ég endurtek það að eignarhaldið getur orðið mikils virði. Ég hef svo sem ekki mikið að athuga við að það verði mikils virði. Ég tel hins vegar, það er stefna sem við í Samfylkingunni höfum haft að leiðarljósi við alla umræðu um slíka hluti, að fara þurfi ákveðnar leiðir þegar ríkið úthlutar einhverju sem getur orðið mikils virði. Þá eiga menn að meta það á markaði, ef fleiri vilja, hverjir eigi að hljóta þá náðarmola sem detta af borðum t.d. hæstv. landbrh. í þessu tilfelli.

Ég fagna því hins vegar að hæstv. ráðherra telur sig hafa það í hendi sinni að ákveða hve mikið umfang verður á þessu eldi núna á hverjum stað. Ég tel, þrátt fyrir að ég bindi vonir við að þessi atvinnuvegur geti hjálpað landsbyggðinni, að það sé til góðs að menn fari ekki hratt af stað. Fiskeldisfyrirtæki upp á 3--4 þús. tonn eru býsna stór þrátt fyrir allt þó að þau fari ekki upp í 8 þús.