Vegagerðin

Miðvikudaginn 14. febrúar 2001, kl. 13:46:37 (4556)

2001-02-14 13:46:37# 126. lþ. 70.1 fundur 363. mál: #A Vegagerðin# fsp. (til munnl.) frá samgrh., SJS
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 126. lþ.

[13:46]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil nefna tvennt í þessu sambandi. Það fyrra er af því að hér ræðir um starfsmenn eða starfsmannafjölda hjá Vegagerðinni, þá held ég að ekki sé á neinn hallað þó sagt sé að Vegagerðin hafi verið í nokkrum fararbroddi hvað það varðar að byggja upp starfsemi sína með þeim hætti að eins mikið af verkefnum væri unnið á landsbyggðinni og kostur er og þróunin hefur heldur verið í þá átt að störfum þar hefur hlutfallslega verið að fjölga og það finnst mér vera til fyrirmyndar. Mættu ýmsir taka sér það til eftirbreytni.

Það síðara er að ég er ósammála því sem kemur fram í fyrirspurninni í 2. lið að það eigi að vera markmið í sjálfu sér að Vegagerðin þurfi endilega að bjóða alla slitlagagerð eða lagningu bundinna slitlaga út. Ég held að það fyrirkomulag sem við lýði hefur verið að a.m.k. einn öflugur flokkur hefur verið hjá Vegagerðinni sjálfri hafi gefist vel. Gegnum það hefur Vegagerðin haft aðgang að upplýsingum til samanburðar. Hún hefur sjálf haft nokkurt svigrúm til að leysa tilfallandi verkefni, minni verkefni, tvöföldun kafla o.s.frv. Ég sé enga sérstaka ástæðu til þess að amast við því fyrirkomulagi að sjálfstæð eining innan Vegagerðarinnar sem gerð er upp sem sjálfstæð rekstrareining sé þarna til staðar um einhvern lítinn hluta af verkefnunum.