Vegagerðin

Miðvikudaginn 14. febrúar 2001, kl. 13:50:11 (4559)

2001-02-14 13:50:11# 126. lþ. 70.1 fundur 363. mál: #A Vegagerðin# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi GunnB
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 126. lþ.

[13:50]

Fyrirspyrjandi (Gunnar Birgisson):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans. Í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar og í máli hæstv. ráðherra kom fram að eiginlega þyrftu að vera vinnuflokkar í hverri starfsgrein til að geta kontróllerað verð. Það er ekki pólitík sem gengur upp í mínum huga og gengur ekki. Hér þyrfti t.d. að auka útboð í brúargerð og annað en Vegagerðin er nú að gera það. Það hefur vafist fyrir mörgum allur sá kostnaður sem verður af þeim flokkum hjá Vegagerðinni.

Rétt til upplýsinga, þar sem spurt var um klæðningu, þá eru það fjögur fyrirtæki sem eru í klæðningu og fjögur til fimm fyrirtæki sem geta lagt malbik. Einnig má taka fram að Vegagerðin sjálf er með viðgerðaflokka í klæðningum sem væri leikandi hægt að bjóða út.

Það er annað varðandi kostnaðaráætlanirnar. Þær hafa einungis breyst um 6,5% frá ágúst 1999 til desember 2000. Á sama tíma hefur kostnaður við verkin aukist um 20--30%. Þá spyr maður hvernig Vegagerðin hafi hugsað sér að vinna slík verk eða hvernig þeir mundu svara fyrir það. Mundu þeir lækka verðið á mönnunum --- þeir gætu það nú ekki --- eða tækjunum sínum eða öðru slíku? Ég held að þessi hækkun sé algerlega óraunhæf.

Að lokum þakka ég enn og aftur hæstv. ráðherra fyrir svör hans.