Sjúkraflug

Miðvikudaginn 14. febrúar 2001, kl. 13:55:14 (4561)

2001-02-14 13:55:14# 126. lþ. 70.2 fundur 405. mál: #A sjúkraflug# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi KLM
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 126. lþ.

[13:55]

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller):

Herra forseti. Fyrirspurn mín til samgrh. er um framkvæmd á sjúkraflugi, sérstaklega á landsbyggðinni, og hljóðar svo:

,,Hyggst ráðherra tryggja að ávallt sé einhver á bakvakt vegna sjúkraflugs á þeim flugvöllum sem ekki eru með sólarhringsvakt? Ef svo er, hvenær er úrlausnar ráðherra þá að vænta?``

Herra forseti. Ástæðan fyrir fyrirspurn minni er sú að verklagsreglur sem hafa verið gefnar út til starfsmanna flugvalla á mörgum stöðum úti á landi eru þannig að flugvallarverðir eða staðgenglar þeirra eru fyrstir í pýramídanum hvað það varðar þegar læknir metur svo að hann þurfi að fá sjúkraflug, og þessir starfsmenn Flugmálastjórnar eru ekki á bakvakt. Ef við tökum sem dæmi Aðaldalsflugvöll eða Húsavík, þar er ekki orðinn eftir nema einn starfsmaður, þeim hefur fækkað um tvo hjá Flugmálastjórn. Sá starfsmaður er með vinnutíma frá 8--5 á virkum dögum og engan fastan vinnutíma um helgar og þar er enginn á bakvakt. Ef þessi maður er ekki í héraðinu, þá er sá pýramídi sem hefur verið byggður upp eða það skipulag um sjúkraflug fallið, ef ekki næst í þennan starfsmann.

Við getum tekið dæmi um hvernig þetta virkar á Aðaldalsflugvelli. Ef heilsugæslulæknir eða aðili frá Heilbrigðisstofnun Þingeyinga hringir á flugvöllinn, þá hljóðar þetta á þessa leið: Hringt er í 464 1253 og eins og það var morgun, þá hringdi lengi, og ef farsíminn er ekki innan þjónustusvæðis (EKG: Hver svarar þá?) þá kemur: Veljið talnaboð, hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson. Síðan er númerið hjá Heilbrigðisstofnun Þingeyinga stimplað inn og þá kemur svarið: Boðin verða send. Þá er það undir hælinn lagt hvenær viðkomandi starfsmaður fær þau skilaboð eða hann gæti þess vegna verið suður í Reykjavík vegna þess að hann er ekki á bakvakt ef þetta væri um helgi. Upp á þetta skipulag er íbúum landsbyggðarinnar á fjölmörgum stöðum boðið og maður gæti spurt, hvort hér sé ekki verið að búa til eitthvert kerfi þannig að íbúar landsbyggðarinnar fái það á tilfinninguna að þeir séu í þessum efnum eins og svo mörgum öðrum með skilaboðum frá hæstv. ríkisstjórn og stjórnvöldum í Reykjavík einhvers konar annars flokks þegnar landsins. Ég spyr þess vegna samgrh. þeirrar spurningar sem ég las upp í byrjun: Hvernig á að bregðast við þessu máli og hvað verður gert til þess að íbúar landsbyggðarinnar muni búa við sama öryggi og sömu heilsugæslu og íbúar höfuðborgarsvæðisins sem geta farið hvenær sem er sólarhringsins til læknis?