Sjúkraflug

Miðvikudaginn 14. febrúar 2001, kl. 14:06:59 (4567)

2001-02-14 14:06:59# 126. lþ. 70.2 fundur 405. mál: #A sjúkraflug# fsp. (til munnl.) frá samgrh., EKG
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 126. lþ.

[14:06]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Það gefur augaleið að þær miklu breytingar sem hafa átt sér stað á undanförnum árum í innanlandsflugi hafa orðið til þess að við höfum orðið að taka sjúkraflugið til gagngerrar endurskoðunar og hæstv. samgrh. hefur verið að gera það mjög skipulega. Hann hefur verið að reyna að ná samningum við þá aðila sem stunda þetta flug og tryggja síðan með samningum við heimamenn að hægt sé að sinna þessum málum sem best og farsælast.

Stóra málið í þessu sambandi er einmitt það sem hv. þm. Drífa Hjartardóttir var að segja og það er hvernig fer nú um framtíð Reykjavíkurflugvallar sem er auðvitað grundvallarhlekkurinn í þessu máli öllu saman. Það gefur auðvitað augaleið, virðulegi forseti, ... (Frammíköll í þingsal.)

(Forseti (ÁSJ): Forseti biður þingmenn að gefa hljóð í salnum.)

Það gefur augaleið, virðulegi forseti, að það þýðir lítið að byggja upp öflugt bakvaktakerfi úti á landi og byggja upp öfluga þjónustu á þessu sviði (TIO: Hárrétt.) ef það er þannig að Reykjavíkurflugvöllur verði ekki miðstöð sjúkraflugsins því það þýðir einfaldlega að verið er að lengja þann tíma sem það tekur sjúkling að fara utan af landi og til Reykjavíkur á sjúkrahús til að sækja sér nauðsynlega þjónustu. (Frammíköll í þingsal.) Það er undarlegt að þingmenn skulu verða órólegir undir þeim sannindum sem hér er verið að færa fram.

(Forseti (ÁSJ): Forseti vill enn og aftur áminna þingmenn um að hafa hljóð í salnum.)