Tjón af völdum óskilagripa

Miðvikudaginn 14. febrúar 2001, kl. 14:21:56 (4576)

2001-02-14 14:21:56# 126. lþ. 70.3 fundur 387. mál: #A tjón af völdum óskilagripa# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 126. lþ.

[14:21]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Fyrirspyrjandi spyr hver sé afstaða mín til þess að sveitarfélög beri eigendaábyrgð í þeim tilvikum þar sem ómerktir óskilagripir sem ekki tekst að sanna eignarhald á valda tjóni, t.d. óskilahross á vegum þar sem lausaganga er bönnuð.

Félmrn. telur að sveitarfélögin séu ekki ábyrg eins og lögum er háttað í dag við þær aðstæður sem hér um ræðir. Þá vaknar sú spurning hvort ég hyggist beita mér fyrir lagasetningu sem kveði á um bótaábyrgð sveitarfélaga í slíkum tilvikum eða kanna hvort breyta eigi lögunum til að og gera sveitarfélögin ábyrg. Það er rétt að taka fram að ráðuneytið hefur ekki neinar handbærar tölur um fjölda umferðaróhappa vegna lausagöngu óskilapenings. En á það skal bent að það stendur e.t.v. öðrum aðilum nær en sveitarfélögunum að gæta þess að bann við lausagöngu sé virt og má í því sambandi nefna lögreglu og Vegagerð.

Í 56. gr. vegalaga, nr. 45/1994, segir raunar:

,,Lausaganga búfjár á vegsvæðum stofnvega og tengivega þar sem girt er báðum megin vegar er bönnuð. Vegagerðinni er heimilt að fjarlægja búfé af lokuðum vegsvæðum á kostnað eigenda.``

Ekki munu vera til dómar þar sem Vegagerðin hefur verið dæmd bótaskyld á grundvelli þessa ákvæðis enda er einungis um heimild að ræða en ekki skyldu. Í einhverjum lögregluumdæmum mun eigi að síður vera um það að ræða að lögreglan vísi kvörtunum vegna lausagöngu hrossa til starfsmanna Vegagerðarinnar, a.m.k. ef slíkar kvartanir berast á dagvinnutíma. Og starfsmenn Vegagerðarinnar munu leysa úr slíkum málum eftir getu.

Ef huga ætti að því að auka ábyrgð Vegagerðarinnar vegna þessara mála þá má að mörgu leyti segja að hún sé betur í stakk búin til að framfylgja lausagöngubanni en sveitarfélögin. Aukin ábyrgð mundi væntanlega einnig leiða til þess að Vegagerðin legði meiri áherslu á byggingu og viðhald girðinga meðfram þjóðvegum en nú er. Það er augljóst að það mætti fækka slysum sem hljótast af búfé með því að hafa girðingarnar betri og ganga betur frá hliðum, þ.e. hafa pípuhlið eða ristarhlið.

Sveitarfélögin hafa einungis eftirlit með viðhaldi girðinga í sveitarfélaginu og geta sinnt viðhaldi á kostnað eigenda ef því er ábótavant. Spurningin er hvort aukin ábyrgð sveitarfélaga mundi bæta úr því ófremdarástandi sem sums staðar ríkir vegna lausagöngu búfjár. Það má telja hæpið. Ráðuneytinu er kunnugt um að allmörg sveitarfélög hafa sett almennt bann við lausagöngu búfjár. En það þýðir að eigendum er skylt að halda fénaði innan girðingar allt árið. Og með því skapa þau reyndar skaðabótaábyrgð eigenda sem eiga skepnur sem þvælast út á vegina.

Ef þau ættu að bera fjárhagslega ábyrgð vegna óhappa á vegum eru mestar líkur á því að sveitarfélög felldu einfaldlega þetta lausagöngubann úr gildi. Að vísu er mikið ólag á því að ekki skuli vera samræmi í því hvort lausagöngubann er eða ekki milli sveitarfélaga. Og ég vek athygli á því að búfjáreigendur geta tryggt sig hjá tryggingafélögum vegna tjóns sem gripir þeirra kunna að valda. En auðvitað er það fyrst og fremst á ábyrgð ökumanns ef óhapp verður, þ.e. þá er ekki ekið í samræmi við aðstæður ef menn keyra á.