Tjón af völdum óskilagripa

Miðvikudaginn 14. febrúar 2001, kl. 14:30:12 (4580)

2001-02-14 14:30:12# 126. lþ. 70.3 fundur 387. mál: #A tjón af völdum óskilagripa# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 126. lþ.

[14:30]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Það var ekki ætlun mín með þessari einföldu fyrirspurn að vekja almennar umræður um lausagöngu búfjár. Hér er spurt um mjög afmarkað atvik, þ.e. þær sérstöku aðstæður sem upp koma réttarfarslega þegar ekki er unnt að sanna hver er eigandi grips sem valdið hefur tjóni. Engin deila er um að þegar eigandi liggur fyrir þá ber hann eigendaábyrgðina hver sem hún er og tekur á sig hlutfallslegt tjón ef tjóni er skipt o.s.frv. Ég spyr hér um þær sérstöku aðstæður sem koma upp og dæmi eru um, að ómerktir óskilagripir valda tjóni og ekki tekst að sanna hver eigandinn er. Þá virðist samkvæmt núverandi réttarástandi í landinu enginn bera eigendaábyrgðina. Hæstv. félmrh. vísar því frekar af sveitarfélögunum en hitt að þau geri það. Því er ég ósammála og ég teldi út af fyrir sig ástæðu til, í ljósi þessara svara, að einhver léti á það reyna fyrir dómstólum hvort svo er. Það er allsendis óvíst að mínu mati hvernig um það færi. Ég sé ekki að það sé líklegt að sveitarfélög geti tekið óskilagripi, boðið þá upp og hirt andvirðið, sem sagt fénýtt þá ef svo ber undir en neitað að bera ábyrgð ef þeir valda tjóni. Út frá venjulegum gagnályktunum þá finnst mér það hæpið.

Það er ósanngjarnt gagnvart þeim einstaklingum sem verða í sérstökum tilvikum fyrir tjóni vegna óskilagripa sem ekki tekst að sanna eignarhald á, að þeir skuli njóta lakari tryggingaverndar og vera verr staddir með uppgjör á sínum málum en ella. Þarna verður að loka gatinu. Ég held að lausnin sé tæplega sú að velta því yfir á Vegagerðina. Ég held að það sé miklu frekar þannig að fara verði yfir það hvort nokkur annar aðili en sveitarfélögin geta, þá innan sinnan lögsögumarka, axlað þessa eigendaábyrgð. Ég var að vonast til að hæstv. ráðherra mundi svara sjálfum sér játandi þeirri seinni spurningu sem lá auðvitað í loftinu, hvort ekki væri þá óhjákvæmilegt að breyta lögum og taka af skarið í þessum efnum. Ég a.m.k. áskil mér allan rétt til að skoða í framhaldinu hvort ekki sé ástæða til slíks.