Undanþágur frá fasteignaskatti

Miðvikudaginn 14. febrúar 2001, kl. 14:38:43 (4583)

2001-02-14 14:38:43# 126. lþ. 70.4 fundur 409. mál: #A undanþágur frá fasteignaskatti# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 126. lþ.

[14:38]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Í samræmi við tilmæli tekjustofnanefndar hef ég skipað nefnd til að yfirfara undanþágur frá fasteignaskatti og hefur sú nefnd hafið störf. Í henni eiga sæti Gísli Gíslason bæjarstjóri og Hjörleifur Kvaran borgarlögmaður, tilnefndir af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Ólafur Páll Gunnarsson, tilnefndur af fjmrh. og Guðjón Bragason, deildarstjóri í félmrn., sem er formaður nefndarinnar.

Borist hefur ósk frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga um að umboð nefndarinnar verði útvíkkað og henni falið að kanna einnig undanþágur frá öðrum lögákveðnum tekjustofnum sveitarfélaga sem tengjast eignarhaldi á fasteignum, svo sem gatnagerðargjöldum, og einnig að yfirfara kvaðir sem lagðar eru á sveitarfélög til að láta af hendi, endurgjaldslaust, lóðir til ýmissa opinberra framkvæmda. Þessi ósk er til athugunar í ráðuneytinu en ekki er ljóst hvort við útvíkkum þetta umboð. Ætlast er til þess að nefndin ljúki störfum fyrri hluta sumars. Ef niðurstaðan yrði sú að útvíkka umboðið þá kynni það að fresta því að nefndin ljúki störfum því þá er henni fengið meira verk en áformað var upphaflega.

Engin heildarúttekt liggur fyrir um hversu háar fjárhæðir eru í spilinu. Nefndin um tekjustofna sveitarfélaga sendi að vísu fyrirspurn til allra sveitarfélaga um þær eignir sem undanþegnar eru fasteignaskatti samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga. Það má gefa sér að hér sé um verulegar fjárhæðir að ræða, peninga sem ganga frá ríki til sveitarfélaga. Ég hef ekki í valdi mínu að skjóta á hve há upphæðin er. Í svari Reykjavíkurborgar til tekjustofnanefndar kemur fram að fasteignir í eigu ríkissjóðs og einkaaðila sem undanþegnir eru fasteignaskatti hér í borginni, samkvæmt ákvæði laga um tekjustofna sveitarfélaga um undanþágu frá fasteignaskattinum, séu samtals metnar á rúmlega 23 milljarða í fasteignamati.

Það er ekki gefið hvernig álagningarprósenta yrði á þessar fasteignir. Ég treysti mér því ekki til að giska á hve háa upphæð er um að ræða en málið snýst um verulegar fjármunatilfærslur, ef farið yrði í að útrýma þessum undanþágum algerlega, frá ríki til sveitarfélaganna. Það kæmi að sjálfsögðu inn í önnur fjármálasamskipti ríkis og sveitarfélaga.