Undanþágur frá fasteignaskatti

Miðvikudaginn 14. febrúar 2001, kl. 14:46:02 (4587)

2001-02-14 14:46:02# 126. lþ. 70.4 fundur 409. mál: #A undanþágur frá fasteignaskatti# fsp. (til munnl.) frá félmrh., KLM
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 126. lþ.

[14:46]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þá fyrirspurn sem hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson flytur um þetta mál, sem er efnislega sams konar fyrirspurn og ég lagði fram á síðasta þingi til hæstv. félmrh. og í svari var vitnað til þess að tekjustofnanefndin væri að störfum og þaðan kæmu tillögur.

Nú hefur tekjustofnanefndin lokið störfum eins og við vitum. Þar var lögð fram tillaga og ég fagna því að hæstv. félmrh. skuli strax vera búinn að skipa nefnd til að vinna þetta. En ég hjó eftir því þegar hann taldi upp þá sem eru í nefndinni að enginn er af landsbyggðinni. Ég vil undirstrika og segja að Akranes tilheyrir nú ekki landsbyggðinni (Gripið fram í: Guðjón Bragason.) eins og við erum hér að tala um. (Gripið fram í.) Ég hefði viljað að litlu sveitarfélögin úti á landsbyggðinni hefðu fengið að tilnefna mann í þessa nefnd.

En það er auðvitað hárrétt sem hér hefur komið fram að verið er að mismuna sveitarfélögunum mjög mikið. Greitt er fasteignagjald af ráðuneytum til höfuðborgarinnar, en t.d. ríkisfyrirtæki eins og Rarik þarf ekki að borga sveitarfélögum eins og Skagafirði eða öðrum. Þetta á einnig við um framhaldsskóla. Ég vil enn á ný þakka fyrir fyrirspurnina en hvetja til þess að vinnu í þessu máli verði lokið sem allra fyrst.