Hvalveiðar

Miðvikudaginn 14. febrúar 2001, kl. 14:55:29 (4591)

2001-02-14 14:55:29# 126. lþ. 70.5 fundur 397. mál: #A hvalveiðar# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 126. lþ.

[14:55]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég er frekar óvanur því að svara fyrirspurnum sem lagðar eru fram sérstaklega til þess að berja á öðrum hv. þm., í þessu tilfelli hv. formanni sjútvn.

En því er til að svara að því miður er það ekki svo að ekkert sé til fyrirstöðu þó að Norðmenn hafi heimilað útflutning á hvalaafurðum, því það þarf auðvitað einhver sem skiptir máli að heimila innflutning. Í þessu tilfelli er það Japan og það innflutningsleyfi liggur ekki fyrir. Japanir gera kröfu um það í fyrsta lagi að hvalaafurðir komi úr löglegum hvalveiðum. Í öðru lagi munu þeir vætnanlega gera kröfu um að fyrir liggi DNA-upplýsingar um úr hvaða stofnum afurðirnar eru svo hægt sé að sannreyna það kerfisbundið. Að því er ég best veit liggur slíkt kerfi ekki fyrir enn þá.

Staðan er því sú að við mundum ekki í dag geta uppfyllt skilyrði Japana um að hvalveiðar okkar væru löglegar. Í fyrsta lagi vegna þess að við erum ekki meðlimir í Alþjóðahvalveiðiráðinu. Í öðru lagi, þó að við værum meðlimir í Alþjóðahvalveiðiráðinu þá yrðum við annaðhvort að hafa viðurkenndan fyrirvara á hvalveiðibanninu eða þá að stunda vísindaveiðar á hvölum.

Seinni liðurinn fjallar um það hvenær ráðherra mundi heimila hvalveiðar. Það liggur ekki enn þá fyrir. Eins og fram hefur komið er unnið að kynningu á málefninu meðal viðskiptaþjóða okkar í samræmi við ályktun Alþingis frá 1999 og í samræmi við fjárveitingar á fjárlögum síðasta árs og yfirstandandi árs. Eins og reyndar hefur komið fram voru ákveðnir erfiðleikar á því að nýta þær fjárveitingar sem við höfðum heimildir fyrir á síðasta ári eins og best hefði verið á kosið, vegna þeirrar stöðu sem kom upp í Bandaríkjunum í kosningunum. Hún svo sem kom ekkert upp, það fóru einfaldlega fram kosningar og því ekki vitað hverjir yrðu við stjórnvölinn á næstu árum og því ekki hægt að beina upplýsingum okkar til þeirra sem mestu máli skipta.

Í seinni liðnum er einnig spurt á hvaða tegundum veiðar yrðu heimilaðar. Það hefur áður komið fram á hv. Alþingi að ég tel að ef við hefjum hvalveiðar þá eigum við ekki að einskorða það við einstakar tegundir, nema að því marki sem Hafrannsóknastofnun telur að stofnarnir þoli, og þá á ég við að við ættum ekki bara að fara út í veiðar á hrefnu heldur ættum við jafnframt að heimila veiðar á stórhvölum og ekki gera okkur málið þannig erfiðara fyrir með því að skipta heimildinni í tvennt.