Hvalveiðar

Miðvikudaginn 14. febrúar 2001, kl. 15:05:11 (4598)

2001-02-14 15:05:11# 126. lþ. 70.5 fundur 397. mál: #A hvalveiðar# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., RG
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 126. lþ.

[15:05]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Þetta er eiginlega alveg frábær umræða. Það hafa verið mjög misvísandi skilaboð frá stjórnarliðinu í fjölmiðlum og eru hér í dag. Já, það á að veiða, það er hægt að selja, er sagt annars vegar, já, veiðum, bara ekki strax af því það er ekki hægt að selja, er sagt hins vegar. Við getum ekki uppfyllt skilyrðin, segir ráðherrann. Við erum ekki í ráðinu og höfum ekki sett fyrirvara við banninu. Það er hárrétt. Það er staðan sem við erum í. Niðurstaðan: Það er verið að kynna viljann hjá ríkisstjórninni til að veiða og hugsanlega selja í Bandaríkjunum. Að öðru leyti er þetta bara sýndarpólitík, yfirlýsingar í eyru þeirra sem vilja heyra að nú eigi að taka á í málinu, en það er ekkert að marka það sem sagt hefur verið. Við erum bundin í þessari stöðu og það er kannski það sem helst er verið að draga fram með þessari fyrirspurn, alveg óháð því hvað hver einstaklingur, þingmaður eða flokkur vill í þessum sal.