Hvalveiðar

Miðvikudaginn 14. febrúar 2001, kl. 15:08:07 (4601)

2001-02-14 15:08:07# 126. lþ. 70.5 fundur 397. mál: #A hvalveiðar# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 126. lþ.

[15:08]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Eins og hér hefur komið fram eru skilaboðin sem koma núna úr þessum sal varðandi hvalveiðar afar misvísandi. Hæstv. ráðherra segir okkur, og það kemur mér ekki á óvart, að við höfum ekki uppfyllt ákvæði til að geta flutt út hvalaafurðir til Japan. Þetta hefur legið fyrir. Þess vegna hef ég og ýmsir fleiri hér verið þess mjög fýsandi, og höfum við lagt fram þingmál þess efnis, að þetta lagaumhverfi yrði gert þannig að við gætum unnið, að við gætum farið að taka ákvarðanir sem byggðu þá á þeirri þekkingu og þeirri vitneskju sem við hefðum um markaði og um þær aðstæður sem okkur eru að öðru leyti búnar.

Ég held að ég sé þrisvar eða fjórum sinnum búin að flytja tillögu um að við göngum í Alþjóðahvalveiðiráðið með fyrirvara gagnvart því banni sem okkur láðist að mótmæla um árið. En það hefur ekki verið samþykkt enn og ekki vitum við hvað verið er að vinna. Nefndir hafa verið settar á, þær hafa skilað niðurstöðum og ekkert gerist.

Herra forseti. Ég er ekki að fara í þessa umræðu til að berja á þingmönnum, það er svo fjarri mér, og allra síst þeim ágæta dreng Einari Kristni Guðfinnssyni, en þegar menn eru titlaðir formenn sjútvn. Alþingis og fara fram með staðhæfingar af þessu tagi, hlýt ég að verða að spyrja hér: Er verið að lýsa skoðunum íslenskra stjórnvalda? Hvað stendur til? Við eigum fullan rétt á því að vita það og þess vegna vil ég þakka fyrir þau svör sem hér hafa komið frá ráðherra. Við erum allnokkru nær enda þótt svörin hafi kannski ekki sagt okkur hvenær eða hvað yrði byrjað að veiða.