Staða sjávarbyggða

Miðvikudaginn 14. febrúar 2001, kl. 15:25:07 (4607)

2001-02-14 15:25:07# 126. lþ. 70.7 fundur 404. mál: #A staða sjávarbyggða# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 126. lþ.

[15:25]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Tilgangur SVÓT-greiningarinnar, byggðarlög í sókn og vörn -- sjávarbyggðir, er að finna staðbundin sóknarfæri varðandi atvinnu og búsetu. SVÓT er skammstöfun fyrir styrk, veikleika, ógnanir og tækifæri. Hér er í raun ekki um nýja rannsóknaraðferð að ræða heldur flokkun niðurstaðna sem miðar að því að auðvelda notkun þeirra við framkvæmdaáætlanir. Greiningin er unnin samkvæmt 8. lið þingsályktunar um stefnu í byggðamálum 1999--2001, en þar segir:

,,Fram fari greining á möguleikum einstakra landshluta, meðal annars með tilliti til auðlindanýtingar, iðnaðar- og verslunar, fiskveiða og -vinnslu, samgangna og þjónustustarfsemi. Opinberar aðgerðir miðist við að nýta styrkleika hvers svæðis til atvinnusköpunar. Nýjar lausnir í upplýsingatækni verði nýttar til að skapa störf í hátæknigreinum án tillits til búsetu.``

Niðurstöður þessarar greiningar verða notaðar á landsvísu við gerð nýrrar byggðaáætlunar, en undirbúningur að þeirri vinnu stendur nú yfir. Þá munu einstök sveitarfélög geta nýtt sér niðurstöðu greiningarinnar í stefnumörkun og aðgerðaáætlun á sínu svæði. Nokkur sveitarfélög hafa nú þegar sýnt áhuga á samvinnu við Byggðastofnun varðandi frekari úrvinnslu á þeim niðurstöðum sem fram koma í greiningunni.

Rétt er að hafa í huga að niðurstöður slíkrar greiningar gefa ekki fullkomna mynd þar sem þær eru dregnar saman í örfáar setningar. Jafnframt eru niðurstöðurnar mismunandi fyrir hina einstöku landshluta. Þó má segja að miðað við greiningu Byggðastofnunar þá einkenni eftirfarandi sjávarbyggðirnar í heild sinni.

Helsti styrkur sjávarbyggðanna telst vera nálægð við fiskimiðin og þekking á veiðum og vinnslu sjávarafurða. Einnig má telja almenna ánægju með opinbera þjónustu svo sem góða öldrunarþjónustu og dagvistun og félagslega samkennd á smærri stöðum.

Helstu veikleikar eru veik fjárhagsstaða sveitarfélaganna, fólksfækkun, fábreytt atvinnulíf, lágt menntunarstig, hár samgöngu- og fjarskiptakostnaður, lágt söluverð fasteigna, víða lág laun, fábreytt námsframboð og fábreytt framboð á afþreyingu.

Helstu ógnanir eru samkvæmt skýrslunni atgervisflótti, fækkun starfa í sjávarútvegi og ótrygg framtíð áætlunarflugs.

Helstu tækifæri liggja í samstarfi eða sameiningu sveitarfélaga, eflingu mannauðs, aukinni fjölbreytni atvinnulífs, fjárfestingu í samgöngum og fjarskiptum, menningartengdri ferðaþjónustu, auknu rannsóknarstarfi, fjarvinnslu og fjarkennslu.

Við gerð skýrslunnar voru sjávarbyggðir skilgreindar þannig að 30% starfa tengjast beint sjávarútvegi. Ætlunin er að uppfæra niðurstöðurnar reglulega og þess vegna er skýrslan að svo stöddu ekki prentuð heldur aðgengileg á vefsíðu Byggðastofnunar. Byggðastofnun mun framkvæma sams konar greiningu fyrir stærri þéttbýliskjarna og landbúnaðarhéruð á næstu mánuðum.

Sem svar við síðari spurningunni vil ég að eftirfarandi komi fram: Hér á fyrirspyrjandi við nefnd sem sjútvrh. skipaði í samræmi við bráðabirgðaákvæði V við lög nr. 1/1999, sem breyttu lögum nr. 38, um stjórn fiskveiða. Þessi nefnd var skipuð haustið 1999, en í skipunarbréfi hennar segir:

,,Nefndinni ber að taka tillit til hagsmuna sjávarútvegsins, byggðanna og almennings í landinu í starfi sínu. Markmið breytinganna er að ná fram sem víðtækastri sátt landsmanna um fiskveiðistjórnarkerfið. Þess skal þó gætt að fórna ekki markmiðum um skynsamlega nýtingu og bætta umgengni um auðlindir sjávar, né heldur að raska hagkvæmni og stöðugleika í greininni.``

Ljóst er að verkefni nefndarinnar er vandasamt og miklu skiptir að hún fái starfsfrið til að sinna verkefni sínu. Niðurstöður nefndarinnar og tillögur sjútvrh. í framhaldi af þeim munu koma til kasta Alþingis. Þegar að því kemur gefst þingmönnum öllum kostur á að leggja mat á þá tillögugerð með hliðsjón af þeim markmiðum sem sett voru með þessu starfi, þ.e. að ná sátt um fiskveiðistjórnarkerfið. Sú sátt þarf m.a. að byggja á því að taka tillit til sjónarmiða byggðanna eins og skýrt kemur fram í erindisbréfi nefndarinnar eins og áður sagði.