Staða sjávarbyggða

Miðvikudaginn 14. febrúar 2001, kl. 15:41:29 (4617)

2001-02-14 15:41:29# 126. lþ. 70.7 fundur 404. mál: #A staða sjávarbyggða# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 126. lþ.

[15:41]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin, en hlýt um leið að lýsa nokkrum vonbrigðum með þau. Út af fyrir sig er góðra gjalda vert að útskýra hvernig veikleikagreining er unnin og að síðan standi til að nota efni hennar í endurskoðun byggðaáætlunar. En það er nú að verða svo að trú manna daprast mjög á að fögur fyrirheit í byggðaáætlunum sem lengi hafa verið þar á blaði, og mikið var látið með þá síðustu, skili miklu ein og sér. Það sem ég var fyrst og fremst á höttunum eftir voru aðgerðir, beinar tillögur um úrræði og eitthvað sem hönd er á festandi. Í aðalatriðum liggur allt fyrir sem þarf að liggja fyrir. Undirstöðuatvinnugreinarnar hafa veikst, sums staðar er undirstaðan hrunin og undirstaða byggðarinnar við sjávarsíðuna, í minni sjávarbyggðunum er bátaútgerð og fiskvinnsla. Vandséð er að annað reynist auðuppbyggt í staðinn ef sú undirstaða er frá mönnum tekin eða ekki til staðar. Þjónusta hefur dregist mikið saman. Pósthús, sími og bankar hafa lokað eða dregið úr starfsemi sinni. Verslun á í erfiðleikum o.s.frv. Allt ber því að sama brunni að atvinnulífið hefur veikst á þessum stöðum og þá þarf auðvitað ekkert að spyrja að leikslokum.

Varðandi svar við seinni spurningunni um það með hvaða hætti hæstv. ráðherra hygðist beita sér gagnvart þeirri endurskoðun fiskveiðistefnunnar sem nú stendur yfir, þá verð ég að lýsa miklum vonbrigðum með það. Ef hæstv. ráðherra ætlar ekki á neinn hátt sem ráðherra byggðamála að beita sér gagnvart því starfi á meðan það er á vinnustigi, því ég held að það verði torsótt að koma því að með fullnægjandi hætti eftir að málin eru frágengin í slíkum hóp eða komin frá ráðherra og hingað til þingsins og vísa því inn í framtíðina, mér finnst það ekki fullnægjandi lausn. Ég tel að hæstv. ráðherra ætti að beita sér með því að vekja sérstaklega athygli nefndarinnar á, m.a. þessari skýrslu, þeim vanda sem við er að glíma í fiskvinnslunni á minni sjávarbyggðunum og fara fram á að endurskoðunarstarfið taki mið af þeim veruleika.