Reglur Evrópusambandsins um viðskipti með dýraafurðir

Miðvikudaginn 14. febrúar 2001, kl. 15:46:55 (4619)

2001-02-14 15:46:55# 126. lþ. 70.8 fundur 400. mál: #A reglur Evrópusambandsins um viðskipti með dýraafurðir# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi JB
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 126. lþ.

[15:46]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég leyfi mér að beina spurningum til hæstv. landbrh. varðandi reglur Evrópusambandsins um viðskipti með dýraafurðir og hvernig þeim hefur verið beitt hér og öðrum reglum um innflutning á landbúnaðarvörum.

Þegar Ísland gerðist aðili að Evrópska efnahagssvæðinu fékk það góðu heilli undanþágu frá I. viðauka sem fylgdi með samningnum sem fjallar um verndun og heilbrigði dýra og plantna. Sá kafli fjallaði einmitt um verslun og markaðssetningu á dýraafurðum. Ef Ísland hefði nú gerst aðili að þessum hluta samningsins yrðum við að hlíta sömu reglum og áhættumati og ESB-löndin gera innbyrðis, eða svipað og Norðmenn gerðu, en innan Evrópusambandsins er verslun með dýraafurðir að öðru jöfnu frjáls.

Samkvæmt þeim samningi sem gerður var um þessa undanþágu átti að taka upp og endurskoða þessa undanþágu á árinu 2000. Ég leyfi mér því að spyrja hæstv. ráðherra:

Mun ráðherra áfram standa gegn því að teknar verði upp reglur Evrópusambandsins varðandi heilbrigði dýra og plantna sem undanþága fékkst frá þegar EES-samningurinn var samþykktur og koma fram í I. viðauka við hann?

Í framhaldi af því spyr ég einnig: Hver fer með þessa endurskoðun samningsins af hálfu íslenskra stjórnvalda? Er það hæstv. landbrh.?

Herra forseti. Viðbrögð landbrn. við innflutningi á írsku nautalundunum fyrir áramótin og umræðan sem fylgdi í kjölfarið virtist benda til þess að nú þegar væri unnið samkvæmt reglum eins og við værum þegar orðnir aðilar að Evrópusambandinu og hefðum gert innri reglur Evrópusambandsins um verslun og markaðssetningu á dýraafurðum að okkar. En svo er alls ekki, herra forseti, eins og ég hef bent á.

Því vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. ráðherra:

Er það mat ráðherra að Íslendingum beri nú þegar að fara að áliti og niðurstöðum vísindanefndar Evrópusambandsins við áhættumat í viðskiptum og við markaðssetningu á lifandi dýrum og dýraafurðum frá ríkjum þess?

Herra forseti. Fjölmörg ríki hafa þegar bannað innflutning á nautgripaafurðum frá mörgum löndum. Því spyr ég:

Hvers vegna bannar ráðherra ekki nú þegar innflutning nautgripaafurða frá Evrópusambandinu vegna hættu á kúariðusmiti og fylgir þannig fordæmi fjölmargra annarra ríkja, t.d. Bandaríkjanna, Kanada, Ástralíu, Nýja-Sjálands og Japans, sem eins og Ísland eiga aðild að Alþjóðaviðskiptastofnuninni? Við Íslendingar ættum að geta fylgt fordæmi þeirra.