Reglur Evrópusambandsins um viðskipti með dýraafurðir

Miðvikudaginn 14. febrúar 2001, kl. 15:56:26 (4622)

2001-02-14 15:56:26# 126. lþ. 70.8 fundur 400. mál: #A reglur Evrópusambandsins um viðskipti með dýraafurðir# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi JB
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 126. lþ.

[15:56]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. fyrir svörin og þakka hv. þm. Drífu Hjartardóttur fyrir innlegg hennar í umræðuna. Ég fagna þeirri yfirlýsingu sem hæstv. ráðherra gaf. Ég leit svo á að það væri vilji og ákvörðun ríkisstjórnarinnar að Ísland muni áfram standa utan við aðild að I. viðauka við Evrópusambandssamninginn þar sem kveðið er á um heilbrigði dýra og plantna. Ég vona að ég hafi skilið það rétt að við munum gera það áfram.

Ég vil þó í framhaldi af því, herra forseti, spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann líti á þá verslun og viðskipti við einstök lönd Evrópusambandsins. Eins og við vitum eru Evrópusambandslöndin ein heild í viðskiptalegu tilliti og þau mega ekki beita takmörkunum innbyrðis nema að mjög takmörkuðu leyti og með allt öðrum hætti en þriðja ríki, eins og Ísland sem ekki á aðild, getur beitt gagnvart þeim. Hins vegar hafa önnur ríki verið að takmarka aðkomu að mörkuðum sínum, að líta á Evrópusambandslöndin sem heild, vegna þess að þeir telja að þau séu öll jafnhættuleg vegna þessara fríu viðskipta þar á milli.

Ég vildi árétta, herra forseti, að ég vil að skýr svör komi frá hæstv. ráðherra hvort ekki megi skilja orð hans svo að litið sé á Evrópusambandslöndin sem eina heild í þessu viðskiptalega tilliti en þau ekki flokkuð eitt og eitt sem gengur náttúrlega ekki samkvæmt viðskiptareglum þeirra.