Fasteignamat ríkisins og Landskrá fasteigna

Miðvikudaginn 14. febrúar 2001, kl. 16:16:27 (4630)

2001-02-14 16:16:27# 126. lþ. 70.10 fundur 395. mál: #A Fasteignamat ríkisins og Landskrá fasteigna# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 126. lþ.

[16:16]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Í tilefni af þessari fyrirspurn vil ég rifja stuttlega upp aðdraganda málsins.

Á síðasta þingi voru samþykkt þrenn lög varðandi Landskrá fasteigna sem tóku öll gildi nú um áramótin. Landskrá fasteigna er ein skrá fyrir mörg stjórnvöld, einkum sýslumannsembætti, sveitarfélög og Fasteignamat ríkisins sem er skráarhaldarinn. Í skránni verða upplýsingar um fasteignaeigendur sem stjórnvöld þurfa að varðveita til að vernda hagsmuni, réttindi og skyldur. Hugbúnaður Landskrár fasteigna varð til með samruna skráa Fasteignamats ríkisins og þinglýsingarkerfis sem dómsmrn. þróaði. Sjálf skráin myndast síðan á fjórum árum með því að sýslumannsembættin færa upplýsingar úr þinglýsingabókum í skrána, eign fyrir eign, en þar eru fyrir upplýsingar úr fasteignaskrá Fasteignamatsins.

Í greinargerð með frv. að lögum varðandi Landskrá fasteigna voru gefin fyrirheit um aukna starfsemi Fasteignamats ríkisins á Akureyri. Fyrirheitin voru að tölvukerfi sem heldur skrána yrði rekið á umdæmisskrifstofu stofnunarinnar á Akureyri og notendur skráarinnar væru þjónustaðir þaðan. Sá fyrirvari var gerður að gagnaflutningur væri hraðvirkur og öruggur. Í umræðum á Alþingi kom einnig fram að til greina kæmi að fela einkaaðilum þar í bæ að reka tölvukerfið en slíkt yrði metið þegar málið kæmist lengra á rekspöl. Þetta kom einnig fram í umræðum sem fram fóru á Alþingi í haust.

Markvisst er unnið að fullnustu þessara fyrirheita. Greining stendur yfir á möguleikum við rekstur skráarinnar svo sem varðandi búnað, rekstrarfyrirkomulag og útboðsmöguleika og einnig varðandi gagnaflutning og öryggismál, en skráin krefst mikillar bandvíddar og flutningsgetu til að svartími og viðmót verði viðunandi. Greiningunni verður væntanlega lokið fyrir páska og í kjölfar hennar kemur ákvarðanataka um þá leið sem valin verður og henni verður síðan hrint í framkvæmd.

Fyrirhuguð þjónusta við notendur greinist einkum í þrennt: Upplýsingagjöf, aðgangsstýringu og tækniþjónustu. Áformað er að upplýsingagjöf í síma úr skránni hefjist á umdæmisskrifunni á næstu vikum. Aðgangsstýring og tækniþjónusta við notendur hefst svo eðli máls samkvæmt á sama tíma og rekstur gagnasafnsins.

Mun ég þá snúa mér að spurningum þingmannsins.

1. Frá og með ágúst 1999 til janúarloka 2001 réðust níu starfsmenn til Fasteignamats ríkisins. Á sama tíma létu sjö starfsmenn af störfum. Hinir nýju starfsmenn starfa í höfuðstöðvum stofnunarinnar í Reykjavík, en þar létu sex af störfum og einn lét af störfum á umdæmisskrifstofu stofnunarinnar í Borgarnesi. Skipting þessara starfsmanna er sem hér segir:

Fimm matsmenn voru ráðnir, en tveir létu af störfum.

Þrír stjórnendur voru ráðnir, en tveir létu af störfum.

Einn sérfræðingur var ráðinn, en tveir létu af störfum.

Einn lét af störfum í almennri þjónustu og enginn var ráðinn í hans stað.

2. Forstjóri Fasteignamats ríkisins hefur unnið ötullega að því að framfylgja markaðri stefnu um uppbyggingu á Akureyri í tengslum við Landskrá fasteigna. Ég vil minna á að í skýrslu sem Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar gaf út í maí á síðasta ári um úttekt á möguleikum Eyjafjarðarsvæðisins í fjar- og gagnavinnslu kom fram sú skoðun að landsbyggðin væri hvorki tæknilega né kostnaðarlega samkeppnishæf við fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu í fjar- og gagnavinnslu. Sem betur fer breytast aðstæður í fjarskiptum ört og vonandi er þessi níu mánaða gamla skýrsla orðin úrelt að þessu leyti.

Ég vil einnig minna á að það er starfsskylda þeirra sem fara með málefni slíkrar grundvallarskrár sem Landskrá fasteigna er að taka enga áhættu varðandi öryggi, tæknimál og rekstur. Slík viðhorf til skráarhalds komu m.a. glöggt fram er við ræddum á hinu háa Alþingi um frv. um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði.

Allt tal um að áminna forstjórann er gjörsamlega tilefnislaust og fullkomlega út í hött því maðurinn vinnur nákvæmlega samkvæmt markaðri stefnu í þessu efni. Mér er reyndar kunnugt um það að hann hefur persónulega sýnt þessu máli mikinn áhuga og gert það í verki.

3. Daglegur undirbúningur að rekstri Landskrár fasteigna á Akureyri er í höndum forstjóra og framkvæmdastjóra Fasteignamats ríkisins í samráði við fjmrn. Aðsetur þeirra er í höfuðstöðvum stofnunarinnar í Reykjavík. Stefnumótun og undirbúningur fer því einkum fram þar. Það gefur augaleið að ekki er grundvöllur til að ráða starfsmenn á Akureyri vegna Landskrár fasteigna fyrr en ákveðið hefur verið með rekstrarfyrirkomulag skrárinnar.

4. Upplýsingaþjónusta í síma úr Landskrá fasteigna mun geta hafist á umdæmisskrifstofunni á Akureyri á næstu vikum. Í apríl munu liggja fyrir greinargerðir um valkosti og möguleika varðandi gagnaflutningana. Í framhaldi af því hefjast framkvæmdir. Ef ekkert óvænt kemur upp á má vænta þess að fyrir árslok hafi tekist að koma í framkvæmd þeim fyrirheitum sem gefin hafa verið um þessi efni.

Herra forseti. Ég vænti þess að þetta skýri málið. Engin stefnubreyting hefur orðið af minni hálfu eða fjmrn. eða Fasteignamatsins í þessu efni. Staðið verður við allt sem gefið hefur verið fyrirheit um í þessu efni varðandi Akureyri.