Fasteignamat ríkisins og Landskrá fasteigna

Miðvikudaginn 14. febrúar 2001, kl. 16:25:11 (4634)

2001-02-14 16:25:11# 126. lþ. 70.10 fundur 395. mál: #A Fasteignamat ríkisins og Landskrá fasteigna# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 126. lþ.

[16:25]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég vil lýsa ánægju með þær undirtektir sem svör mín hafa fengið. Þetta er í annað sinn á þessu þingi sem við ræðum þessi mál og ljóst er að þingið fylgist vel með því að staðið verði við gefin fyrirheit í þessu máli og það er bara fínt. Mjög fínt.

Það er hins vegar ekki þannig að þessi landskrá hafi verið fullbúin um áramótin. Eins og ég sagði áðan tekur nokkur ár að koma henni upp. En það er verið að undirbúa það að þetta geti allt saman hafist. Annaðhvort verður tölvubúnaðurinn settur inn á umdæmisskrifstofu Fasteignamatsins á Akureyri eða samið verður við einhvern aðila þar í bæ um að taka þetta að sér sem hefur burði og bolmagn til þess. Það er aðeins meira en að segja það vegna þess að þetta er eitt stærsta gagnasafn sem búið hefur verið til á Íslandi, kannski fyrir utan það sem bankarnir eru með og Skýrr. En þetta er a.m.k. langsamlega stærsta tölvuverkefni sem hefur verið talað um að setja niður úti á landi. Það þarf því að vanda þetta verk mjög vel.

Það er líka mikilvægt að þokkalegur friður sé um þetta. Ég vil taka fram að t.d. starfsmenn Fasteignamatsins í Reykjavík hafa alls ekki haft horn í síðu þess að flytja þetta verkefni norður í land, þvert á móti, alls ekki mælt gegn því.

Ég vil svo bæta því við að lokum til að undirstrika enn þá alvöru sem er í málinu, að bæjarstjórinn á Akureyri hefur verið skipaður í stjórn Fasteignamatsins af mér. Það ættu því að vera hæg heimatök fyrir áhugamenn um málið þar á bæ að fylgjast með framgangi málsins. Hann var tilnefndur til mín af Sambandi sveitarfélaga og mér var það alveg sérstök ánægja að skipa hann í stjórn Fasteignamatsins.