Samningar um sölu á vöru milli ríkja

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 10:46:44 (4638)

2001-02-15 10:46:44# 126. lþ. 71.1 fundur 429. mál: #A samningar um sölu á vöru milli ríkja# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[10:46]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt til getið hjá hv. þm. að hér er verið að samræma þessa hluti. Það hefur verið unnið mjög lengi að því og undirbúningurinn hefur tekið alllangan tíma. En það er fyrst þegar lögin hafa verið samþykkt og frá þeim gengið á Alþingi að skilyrði eru sköpuð til þess að við getum staðfest þetta mál og staðið við skuldbindingar okkar sem eru í þessum sáttmála. Það má segja að það hafi tekið heldur langan tíma. Alþjóðasáttmálar eru mjög margir og það hefur tekið misjafnlega langan tíma og menn eru að reyna að gera sitt besta til þess að vinna það upp og hér er dæmi um slíkt mál.

Líka má segja að vegna alþjóðlegrar þróunar og þeirrar alþjóðavæðingar sem hefur átt sér stað hér á landi eins og í öðrum löndum þá verður þörfin brýnni og með þeim miklu breytingum sem við höfum verið að ganga í gegnum á undanförnum árum hefur þessi þörf komið enn betur í ljós. Þess vegna hefur það líka ýtt undir það að ljúka þessu máli.