Breyting á VII. viðauka við EES-samninginn (starfsmenntun)

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 10:49:16 (4640)

2001-02-15 10:49:16# 126. lþ. 71.2 fundur 444. mál: #A breyting á VII. viðauka við EES-samninginn (starfsmenntun)# þál., utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[10:49]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Með þeirri þáltill. sem hér er til umfjöllunar er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 88/2000 frá 27. október, um breytingu á VII. viðauka við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 1999/42/EB frá 7. júní 1999, um almennt kerfi til viðurkenningar á starfsmenntun og starfsþjálfun. Það er gerð grein fyrir efni ákvörðunarinnar í tillögunni og er hún prentuð sem fylgiskjal með henni ásamt þeirri gerð sem hér um ræðir.

Ákvörðun þessi kallar á lagabreytingar hér á landi og var tekin af sameiginlegu EES-nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu.

Ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingar á viðaukum eða bókunum við EES-samninginn eru þjóðréttarsamningar eins og kunnugt er. Samkvæmt samningnum verða þær skuldbindandi fyrir aðildarríkin um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert ríkjanna beiti heimild í 103. gr. samningsins til að gera fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Hafa ríkin sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum. Með þessu er vísað til nauðsynlegs atbeina þjóðþinga aðildarríkjanna og af hálfu Íslands hefur fyrirvara þessum því einungis verið beitt þegar ljóst er að ákvörðun kallar á lagabreytingar í samræmi við 21. gr. stjórnarskrárinnar.

Sú málsmeðferð sem hér um ræðir, að leggja fram sérstaka þáltill., er sú sama og viðhöfð var í tengslum við alls 19 ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar er eins var ástatt um en þingsályktunartillaga þess efnis var flutt og afgreidd á 125. löggjafarþingi. Í athugasemdum með þeirri tillögu var skýrt frá því að framvegis mundi það fyrirkomulag verða tekið upp að leita sérstaklega eftir samþykki Alþingis til staðfestingar sérhverri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem stjórnskipulegur fyrirvari hefur verið gerður við. Slíks samþykkis yrði leitað í formi þingsályktunartillögu en hlutaðeigandi ráðuneyti undirbúi samhliða nauðsynleg frumvörp til lagabreytinga. Jafnframt yrði þeirri föstu vinnureglu komið á, með vísan til 24. gr. þingskapa\-laga, að haft yrði samráð við utanríkismálanefnd um efni þessara ákvarðana meðan þær væru á undirbúningsstigi.

Þessi meðferð ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar samsvarar best stjórnskipulegum venjum okkar við meðferð þjóðréttarsamninga. Auk þess verður aðkoma Alþingis að ákvarðanatöku nefndarinnar tryggari og betri yfirsýn fæst um þróun þessa mikilvæga samnings.

Hvað varðar efnisatriði þeirrar ákvörðunar sem hér um ræðir nægir að meginstefnu að vísa til greinargerðar sem fylgir tillögunni auk gerðarinnar sjálfrar. Þó má nefna að með samþykkt þessarar nýju gerðar eru margar eldri felldar úr gildi og ákvæði þeirra sameinuð í þessari einu gerð. Með þessu er kerfi gerða um gagnkvæma viðurkenningu á prófskírteinum og starfsréttindum einfaldað verulega. Flest ákvæði gerðarinnar eru þegar í gildi innan Evrópska efnahagssvæðisins. Ákveðinn hópur sem hefur menntun og starfsþjálfun á þeim sviðum sem gerðin tekur til er þó þannig settur nú að hann hafði engan viðurkenndan rétt á að fá menntun sína og starfsþjálfun viðurkennda en í gerðinni eru sett ákvæði sem bæta úr þessu sem er að sjálfsögðu mjög mikilvægt fyrir starfsstéttir á Íslandi þannig að þær hafi full réttindi á þessum svæðum.

Að lokum skal nefnt að unnið er að gerð lagafrv. um þetta mál á vegum menntmrn. sem verður síðan lagt fyrir hv. Alþingi með venjubundnum hætti.

Ég vil leggja til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði þessari tillögu vísað til hv. utanrmn.