Breyting á VII. viðauka við EES-samninginn (starfsmenntun)

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 11:17:25 (4645)

2001-02-15 11:17:25# 126. lþ. 71.2 fundur 444. mál: #A breyting á VII. viðauka við EES-samninginn (starfsmenntun)# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[11:17]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er kannski ekki á hverjum degi sem við sem tökum hér þátt í umræðum, fulltrúar fjögurra flokka, erum jafnhjartanlega sammála um umræður um þessi mál og núna. Vissulega hefur sá sem hér stendur oft verið í sporum gagnrýnenda gagnvart ýmsu sem tengist samskiptum við Evrópusambandið. Hitt er jafnljóst að EES-samningurinn er sá grundvöllur sem við byggjum þau samskipti á í dag og ég er eindreginn talsmaður þess að við vöndum þau vinnubrögð sem fylgja þeim samskiptum og hef þess vegna alveg verið ódeigur við að mæla með því að t.d. Alþingi efli fyrir sitt leyti þátttöku sína og styrki sig til þess að geta sinnt hlutverki sínu í þessum efnum sómasamlega.

Samkvæmt þessum samningum og þeirri löglegu skipan sem honum tengist, þá er Alþingi úrslitaaðilinn í öllum ákvörðunum sem þarna fara fram hvað Ísland varðar, þ.e. ekkert af þessu fær gildi gagnvart Íslandi nema Alþingi samþykki það. Þess vegna er það auðvitað umhugsunarefni í ljósi þess hversu fjölmennt íslenskt sendiráð er orðið í Brussel og án efa hafa menn þar nóg að gera. Og einnig þegar við hugsum til þess að ráðuneytin eru meira og minna komin með sína eigin fulltrúa sömuleiðis í Brussel, og atvinnurekendasamtökin og verkalýðshreyfingin liggur þarna meira og minna við eins og kunnugt er, þá hlýtur það að fara að vekja spurningar hvort Alþingi, sem hefur endanlegt ákvörðunarvald um málið eða utanrmn. þess, eigi ekki að hafa þarna a.m.k. einn fulltrúa á vettvangi, ekki til þess að vera beinn þátttakandi í framkvæmd mála sem er á annarra höndum heldur til þess að fylgjast með, tengja saman og koma skilaboðunum jafnóðum hingað heim til starfsmanns sem hér ætti þá að vera á hinum endanum, að lágmarki einn í fullu starfi við að miðla þeim upplýsingum áfram og undirbúa meðferð á Alþingi.

Ég endurtek það sem ég hef áður sagt um þetta efni. Þetta er mál sem við þurfum að fara að taka ákvarðanir um og ég fagna stuðningi utanrrh. við að það verði gert.