Breyting á VII. viðauka við EES-samninginn (starfsmenntun)

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 11:19:40 (4646)

2001-02-15 11:19:40# 126. lþ. 71.2 fundur 444. mál: #A breyting á VII. viðauka við EES-samninginn (starfsmenntun)# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[11:19]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það ber að viðurkenna að utanrrn. hefur ekki á að skipa nægilega mörgu starfsfólki til þess að fylgjast alltaf nægilega vel með því sem er að gerast á þessu sviði. Við höfum t.d. aðeins brot af þeim starfsmannafjölda sem Norðmenn eru með á þessu sviði. Við erum aðeins með örfáa starfsmenn en norskir starfsmenn nálgast kannski 100 og þarna er að sjálfsögðu mikill munur á. Hins vegar styrkir það okkur í þessu starfi að við erum í góðu samstarfi við hinar þjóðirnar í EFTA og EFTA kemur að mjög miklu gagni í samskiptunum við Evrópusambandið. Það er einmitt þess vegna sem ég hef lagt á það áherslu að þýðing EFTA í þessum samskiptum skiptir okkur grundvallarmáli og öll styrking á því starfi er af hinu góða. En ef hins vegar EFTA veikist, þá hefur það veruleg áhrif á stöðu okkar, þannig að við fögnum því að sjálfsögðu ef Alþingi getur bætt við starfskröftum til að vinna á þessu sviði. Það er aðeins til þess fallið að styrkja stöðu utanríkisþjónustunnar í þessu sambandi. Við munum að sjálfsögðu fagna því ef Alþingi sér sér fært að setja inn á þetta svið fólk sem fylgist með því og vinnur að því. Það mun að sjálfsögðu auðvelda okkur samskiptin við Alþingi.