Breyting á VII. viðauka við EES-samninginn (starfsmenntun)

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 11:21:36 (4647)

2001-02-15 11:21:36# 126. lþ. 71.2 fundur 444. mál: #A breyting á VII. viðauka við EES-samninginn (starfsmenntun)# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[11:21]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ekki dreg ég það í efa að ærinn starfi sé fyrir tiltölulega fámennt starfslið sendiráðs okkar í Brussel að fylgjast með öllum þeim ósköpum af nefndum og fundum sem þarna eru. Ljóst er auðvitað að þarna er mikill stærðarmunur á hvort sem við berum okkur saman við Norðmenn og ég tala ekki um enn þá stærri þjóðir. Þetta þekkjum við reyndar í öðru alþjóðasamstarfi.

Það sem ég er fyrst og fremst að leggja áherslu á hér er að fjárveitingavaldið liggur einu sinni hjá Alþingi og þetta er allt spurning um hvað við Íslendingar leggjum í þessi mál úr okkar sameiginlega sjóði og starfsmenn utanrrn., sendiráðs og fulltrúar ráðuneyta eru borgaðir af opinberu fé. Spurningin er í mínum huga því meira um hvernig við tengjum þessar stofnanir saman því útgjöldin enda á einum og sama staðnum. Þetta er kostnaður sem borinn er af ríkissjóði.

Mér finnst að Alþingi eigi sjálft að taka stöðu sína í þessu efni alvarlega til skoðunar og það hljóti að vera fullkomlega eðlileg ráðstöfun að Alþingi sjálft sé þarna með einhverja viðveru í ljósi þess hlutverks sem það hefur í þessum efnum sem er ekki lítið, þ.e. hið endanlega ákvörðunarvald um það hvort ákvarðanir sem þarna eru teknar séu teknar upp í lög og rétt eða þannig á það a.m.k. að heita. Á því hangir allt heila móverkið. Ef svo væri ekki, þá værum við í vondum málum eins og sagt er í dag, ef þetta vald Alþingis væri í raun og veru ekki til staðar eða algerlega óvirkt, þá vitum við hvað það þýðir á mæltu máli gagnvart stöðu þessa samnings við stjórnarskrána o.s.frv. Mér finnst það vera til að undirstrika það að menn átti sig á hlutverki sínu og beri virðingu fyrir sjálfum sér, að Alþingi geri ákveðið átak í þessum efnum.