Breyting á XI. viðauka við EES-samninginn (fjarskiptaþjónusta)

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 11:34:42 (4652)

2001-02-15 11:34:42# 126. lþ. 71.3 fundur 445. mál: #A breyting á XI. viðauka við EES-samninginn (fjarskiptaþjónusta)# þál., utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[11:34]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Með þessari þáltill. sem hér liggur fyrir er leitað heimildar hv. Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 91/2000, um breytingu á XI. viðauka við samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 31/2000, um tiltekna lagalega þætti þjónustu, einkum rafrænna viðskipta, í tengslum við upplýsingasamfélagið á innri markaðnum. Gerð er grein fyrir efni þessarar ákvörðunar í tillögunni og hún er prentuð sem fylgiskjal með henni ásamt þeirri gerð sem hér um ræðir og vísa ég í öllum megindráttum til hennar.

Ákvörðun þessi kallar á lagabreytingu hér á landi og var tekin af sameiginlegu EES-nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu þann 27. október sl.

Herra forseti. Um aðdraganda og rök að baki því að viðhafa þá málsmeðferð sem hér um ræðir vil ég leyfa mér að vísa til þeirrar umræðu sem átti sér stað hér rétt á undan því að hér gildir það sama.

Hvað varðar efnisatriði þeirrar ákvörðunar sem hér um ræðir nægir að meginstefnu að vísa til greinargerðar sem fylgir tillögunni auk gerðarinnar sjálfrar sem einnig fylgir með. Þó er rétt að setja málið í samhengi við þá miklu þróun sem nú á sér stað á sviði fjarskipta og á sviði viðskipta á alnetinu en þessa sér nú mjög merki í starfi Evrópusambandsins og það má vænta þess að fleiri mál komi til kasta Alþingis á næstu missirum sem tengjast þessari öru þróun sem á sér stað og við verðum öll vitni að.

Sú gerð sem hér um ræðir er einn liður í þeirri þróun og skiptir því miklu fyrir þá sem ætla að stunda viðskipti á þennan hátt. Ekki síður skiptir þetta máli í sambandi við öryggi einstaklinga og fyrirtækja í viðskiptum með þessum hætti og hér er um að ræða mjög lýsandi dæmi um hversu mikilvægt það er að samræma reglur á öllu þessu svæði því að allir hafa aðgang að þessum nýju fjarskiptum og geta stundað viðskipti með beinum hætti heima hjá sér eða annars staðar í samfélaginu.

Að lokum skal nefnt að unnið er að gerð lagafrv. um þetta mál á vegum iðn.- og viðskrn.

Ég vil að lokum leggja til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanrmn.