Breyting á XI. viðauka við EES-samninginn (fjarskiptaþjónusta)

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 11:38:16 (4653)

2001-02-15 11:38:16# 126. lþ. 71.3 fundur 445. mál: #A breyting á XI. viðauka við EES-samninginn (fjarskiptaþjónusta)# þál., TIO
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[11:38]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Hér er um að ræða tilskipun sem varðar mjög mörg svið þeirra þjónustuviðskipta sem eru nú að verða æ meiri með hverju árinu, þ.e. eftir leiðum upplýsingasamfélagsins um fjarskipti, og getið er um mjög mörg athyglisverð atriði. Ljóst er að með setningu þessara reglna er verið að gera þessa þjónustu eins frjálsa og unnt er. Til dæmis er verið að leggjast gegn því og gera það óheimilt að gera þjónustu af þessu tagi háða sérstakri leyfisveitingu en jafnframt er verið að tryggja að aðilar samningsins geti haft eftirlit með slíkri þjónustu.

Í ljós hefur komið að á sama hátt og fjarþjónusta af þessu tagi gefur möguleika á mjög hröðum upplýsingaskiptum sem hafa mikið viðskiptagildi eru einnig opnaðar leiðir fyrir alls konar misnotkun og gerir það allt eftirlit með slíkum samskiptum þeim mun mikilvægara.

Ég vil einnig nefna að með þessari tilskipun er verið að undanþiggja svokallaða milligönguaðila ábyrgð á þeim flutningum sem þeir annast að því tilskildu að um sé að ræða sjálfvirka þjónustu af þeirra hálfu. Einnig hér er viðkvæmt mál á ferðinni. Það er að sjálfsögðu hægt að koma sér upp stöðu sem milligönguaðilar í viðskiptum með upplýsingar og firra sig þannig ábyrgð á því sem þar er verið að koma á milli aðila, en hér er sett sú meginregla að menn geti ekki firrt sig slíkri ábyrgð öðruvísi en að framlag til þessarar upplýsingamiðlunar sé sjálfvirkt, eða ef því er að skipta eins konar tímabundið framlag.

Þá er einnig ljóst að þetta svið opnar fyrir heilmikið farg af upplýsingum sem verður að teljast til auglýsinga og óbeðnar viðskiptaorðsendingar eru hluti af því sem einkennir nútímann. Ljóst er af þessum reglum að ríkin hafa heimildir til og eru frjáls til þess að leyfa eða leyfa ekki óbeðnar viðskiptaorðsendingar og hygg ég að það sé skynsamleg ráðstöfun þar sem það er eðlilegt að hvert og eitt ríki taki afstöðu til þess með hvaða hætti slíkt skuli vera.

Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki fyllilega það sem segir í greinargerðinni um innleiðinguna þar sem segir: ,,Tilskipunin miðar að því að styrkja fullnustuleiðir fyrir gildandi Evrópureglur og landslög.`` Að sjálfsögðu munum við í utanrmn. leita eftir skýringum á því hvað þarna er átt við eins og ýmsu öðru tæknilegs eðlis sem þetta mál fjallar um.