Breytingar á XIII. viðauka við EES-samninginn (flutningastarfsemi)

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 11:49:49 (4656)

2001-02-15 11:49:49# 126. lþ. 71.5 fundur 447. mál: #A breytingar á XIII. viðauka við EES-samninginn (flutningastarfsemi)# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[11:49]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta mál. Hér er fjallað um vinnutímatilskipun og við höfum þegar fest í lög hjá okkur nokkrar tilskipanir frá EES um vinnutíma. Oftast nær hafa þau mál komið inn sem sérstök þingmál og verið tekin fyrir í nefndum þingsins, a.m.k. þau sem ég hef komið að í félmn. Alþingis. Þannig var að þegar tilskipun um vinnutíma barna var til umfjöllunar í félmn. þá var það með heitustu málum sem þar voru tekin fyrir. Sérstaklega vakti það viðbrögð þeirra sem rifjuðu upp hversu snemma þeir fóru til sjós og fannst við vera að setja lög sem væru ómöguleg og mundu sennilega gera alla unga drengi að dúkkustrákum.

Nú gerist það hins vegar að í staðinn fyrir þingmál sem lagt er fyrir fagnefndir þingsins þá erum við með breyttum vinnubrögðum að taka upp till. til þál. um staðfestingu á ákvörðunum, þar með vinnutímatilhögun. Nú ber svo við að eiginlega enginn hér hefur áhyggjur af vinnutímatilskipun varðandi sjómennina, sem hér er á bls. 3. Mér finnst það mjög jákvætt. Mér finnst tímabært að taka á þessum málum og festa enn betur en áður ákvæði sem varða sjómennina. Ég vona að þetta sé ábending um að nú sé meiri sátt um að festa vinnutímann og tryggja rétt manna þar einnig. Þess vegna kvaddi ég mér hljóðs, herra forseti, fyrst og fremst til að taka undir þessa ályktun og lýsa því yfir að ég voni að við séum komin lengra en fyrir nokkrum árum þegar vinnutímatilskipun kom til umfjöllunar.