Breytingar á XIII. viðauka við EES-samninginn (flutningastarfsemi)

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 11:53:36 (4658)

2001-02-15 11:53:36# 126. lþ. 71.5 fundur 447. mál: #A breytingar á XIII. viðauka við EES-samninginn (flutningastarfsemi)# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[11:53]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel ljóst að ástæðan fyrir því að bærileg sátt ríki um þessi aldursmörk sé sú að miklar breytingar hafa orðið í íslensku þjóðfélagi. Það er ekki um það að ræða að unglingar fái vinnu við sjósókn með þeim hætti sem áður var, t.d. sem messaguttar á farskipum. Það var mjög algengt að 14, 15 ára menn fengju þar sína fyrstu reynslu. Ég sakna þess tíma, ég skal játa það. Ég hóf minn stutta sjómannsferil 14 ára gamall og tel mig ekki hafa borið neinn skaða af því, þvert á móti hafi það verið öfugt þótt vinnutíminn hafi oft verið mjög langur. En nú eru breyttir tímar og ber að sætta sig við það. Ég vil hins vegar mótmæla því að ungt fólk sem var á sjó á þeim tíma og hóf sjómannsferil sinn mjög ungt hafi almennt borið skaða af því, fremur hafi það orðið til að auka þeim þroska og efla samfélag okkar.