Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 11:57:02 (4660)

2001-02-15 11:57:02# 126. lþ. 71.6 fundur 235. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., GHall
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[11:57]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Hér er haldið áfram umræðu um frv. til laga um að lögleiða ólympíska hnefaleika sem 15 hv. alþm. hafa flutt. 1. flm. að þessu frv. er hv. þm. Gunnar Birgisson.

Ég hafði gaman að því, herra forseti, þegar ég sá hvernig dagskráin er upp sett. Það væri kannski ekki úr vegi, herra forseti, að líta á tvo dagskrárliði sem hér eru, annars vegar 6. liðurinn sem nú er á dagskrá, um lögleiðingu ólympískra hnefaleika, og síðan 7. liðurinn, um óhefðbundnar lækningar. Hnefaleikum fylgja vissulega miklir áverkar og mér finnst það kannski einna alvarlegast í þessu máli, minnugur þess að sem unglingur sá ég hvernig þeir sem æfðu box höguðu sér oft og tíðum á almannafæri. Sú minning og sú slysatíðni sem var samfara boxi hefur leitt til þess að ég er á móti þessu máli.

Þegar litið er á skilgreiningu íþróttar í orðabókum, herra forseti, þá segir að íþróttir séu ,,kerfisbundnar æfingar til að þjálfa líkamann`` --- til að þjálfa líkamann.

Ég er þeirrar skoðunar að box falli að hluta undir þá skilgreiningu, þ.e. hluti af því er að þjálfa líkamann. En er það íþrótt þar sem meginmálið er að rota andstæðinginn? Meginmálið er að berja andstæðinginn í höfuðið?

Ég hef alltaf litið á að íþrótt væri eins og hér er sagt, ,,kerfisbundnar æfingar til að þjálfa líkamann``, en ekki til að gera hann örendan eða óhæfan um að stunda íþrótt um stundarsakir. Venjulega taka þessir leikir enda, annaðhvort með rothöggi eða að svo illa fer fyrir öðrum keppandanum í þessari íþrótt að stöðva verður leik vegna meiðsla.

[12:00]

Flutningsmenn frv. segja að hér sé um ólympíska hnefaleika að ræða sem séu þess eðlis að menn séu klæddir í höfuðfat til að verjast höggum. Sé hins vegar litið yfir umræðurnar sem fram fóru þegar lög voru sett um að banna hnefaleika 1956, þegar farið er yfir greinargerðir og ræður sem þá voru fluttar, kemur margt athyglisvert í ljós. Ég vildi, með leyfi forseta, fá að vitna hér til orða sem þá voru látin falla, málið var þá mjög í umræðunni eins og það er að vissu leyti enn í dag. Nú segja menn að tímarnir séu breyttir, æfingar séu stundaðar samhliða boxi.

Menn hafa meira að segja komið fram í fjölmiðlum og sagst vera á leiðinni til Bandaríkjanna til að taka þátt í ólympískum hnefaleikum. Einhvers staðar hafa þeir þá verið stundaðir hér á landi. Þá segja margir að þetta sé hvort eð er komið til að vera, að breyta eigi lögunum og menn eigi að aðlaga sig að því sem nú er að gerast. Það kann vel að vera rétt, ég hef margsinnis sagt það, að Alþingi geri of mikið af því að setja lög sem eru ekki aðlæg fólkinu og við eigum að setja aðlæg lög. Ég hef verið þeirrar skoðunar. Stundum þarf maður þó að greina á milli þess sem skilgreint er í lögum sem íþrótt og greina eins og þeirrar sem hér er fjallað um. Þá kemst maður auðvitað ekki hjá því að gera upp hug sinn milli eigin sannfæringar og þess sem aðrir telja að sé veruleiki.

Í þeim umræðum sem fram fóru og ég gat um áðan, herra forseti, um bann við hnefaleikum, segir m.a.:

,,Í íþróttalögum er gefin skilgreining á hvað íþrótt sé. Það eru líkamsæfingar er stefna að því að auka heilbrigði manna og hreysti, líkamsfegurð, vinnuþrek og táp.``

Síðar segir:

,,Um hnefaleik má það annars segja að hann fellur vart undir íþróttalögin, sbr. 1. gr. þeirra, þar sem lýst er hvað íþrótt sé. Rothögg eru ekki líkleg til að auka heilbrigði manna og brotin nef munu ekki talin vottur um líkamsfegurð.``

Síðar í umræðunni segir m.a.:

,,Sem betur fer hafa hnefaleikar aldrei náð almennum vinsældum hér á landi en alltaf þótt það sem þeir eru, leiðinleg og ógeðsleg íþrótt, því ef íþrótt er skilgreind sem athöfn sem sé vel fallin til að gera þá sem hana iðka hraustari og heilbrigðari á sál og líkama, þá eru ekki til meiri öfugmæli en að kalla hnefaleika íþrótt. Þeir sem iðka hnefaleika eitthvað að ráði, þ.e. af verulegum áhuga, komast ekki hjá því að finna að iðkun þess leiks hefur áhrif á hugarfarið. Þeir verða uppstökkari, grimmari, hættir meira til að berja aðra af litlu tilefni og hafa jafnvel ánægju að valda líkamsáverkum eða sársauka.``

Í bréfi sem þingmönnum var sent ekki fyrir löngu frá virðulegum borgara, Guðmundi Arasyni, fyrrverandi formanni hnefaleikaráðs, segir í niðurlagi fjögurra blaðsíðna greinargerðar, með leyfi forseta:

,,Niðurstaðan úr rannsókninni sem gerð var fyrir Norðurlandaráð og rannsókninni sem gerð var á Karolinska sjúkrahúsinu leiddi til hliðstæðrar niðurstöðu: Það á ekki að banna ólympíska hnefaleika. Hnefaleikar voru bannaðir hér á landi árið 1956, þrátt fyrir mótmæli ÍSÍ sem þó er aðili að Alþjóðaólympíunefndinni. Ekkert þjóðþing hefur sýnt ólympíuíþrótt aðra eins óvirðingu.``

Þegar gripið er niður í umræður frá því að hnefaleikar voru til umræðu á þingi árið 1954, á árunum 1951--1956 áður en lögin voru samþykkt, má lesa eftirfarandi viðtal sem þáv. hv. þm., Gylfi Þ. Gíslason, átti við þáv. forseta ÍSÍ. Ég ætla, með leyfi forseta, að vitna til þess að gefnu tilefni, vegna bréfs Guðmundar Arasonar þar sem því er haldið fram að ekkert þjóðþing hafi sýnt þessari íþrótt jafnmikla óvirðingu og að ÍSÍ hafi mótmælt þessu harðlega. Þáv. hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason segir:

,,Forseti ÍSÍ sagði mér að ástæðan fyrir mótmælum þeirra samtaka væri alls ekki sú að Íþróttasambandið hefði í sjálfu sér tilhneigingu til þess að halda verndarhendi yfir þessari íþrótt, það væri síður en svo. Sannleikurinn væri sá að iðkun hennar færi mjög þverrandi, sem betur fer sagði hann, þannig að nú mætti heita að mjög lítið kvæði að því að menn legðu stund á hnefaleika. Það taldi hann tvímælalaust stefna í rétta átt. En orsök mótmælanna taldi hann vera þá að það væri varhugavert fordæmi að löggjafarsamkoman sjálf tæki að kveða á um það hvaða íþróttagrein menn skyldu stunda og hvaða grein menn skyldu ekki stunda.``

Það var meginmálið. Það má lesa það hér að sjálfur forseti ÍSÍ var ekki sáttur við þessa íþrótt á meðan hún var leyfð hér á árum áður. Hann var ekki sáttur við þessa íþrótt, hann var á móti henni. En af prinsippástæðum, af því að Alþingi var að blanda sér í starfsemi íþróttahreyfingarinnar, varð hann að vera á móti lagasetningunni. Gylfi Þ. Gíslason segir síðan:

,,Ég spurði hann hvort samtökin mundu vera reiðubúin til þess að taka slíka ákvörðun, þ.e. að leggja til að box yrði leyft, og því var hann að sjálfsögðu, eins og eðlilegt var, ekki reiðubúinn til þess að svara.``

Hér falla fullyrðingar um sjálfar sig. Sagt er að Íþróttasambandið hafi mótmælt þessu. Jú, það gerði það í orði en ekki á borði.

Herra forseti. Einnig má sjá hvernig menn útfærðu mótmæli sín og rök gegn þessari íþróttagrein á þessum tíma, m.a. í grg. sem fylgdi með frv. til laga um bann við hnefaleikum. Þá voru flm. hv. þm. Kjartan J. Jóhannsson og Gísli Guðmundsson. Ég vildi aðeins, með leyfi forseta, fá að vitna hér í grg. þessa. Þar segir svo:

,,Hnefaleikur er einhver sá ógeðfelldasti leikur sem hér þekkist. Ef íþrótt er skilgreind sem holl hreyfing, vel fallin til þess að gera menn hrausta á sál og líkama, þá er öfugmæli að kalla hnefaleika íþrótt. Sem betur fer hafa hnefaleikar aldrei verið vinsælir hér. Ekki er kunnugt um að neinn hafi látið lífið hér við opinbera hnefaleikakeppni, slíkt er þó algengt erlendis. Hitt er þó enn algengara þar að hnefaleikarar verði það sem kalla mætti höggdrukknir, þ.e. fá meira eða minna heilaskemmdir sem valda því að þeir haga sér eins og þeir væru lítils háttar ölvaðir. Stórslys og dauðsföll hafa hlotist hér á landi af áverkum af hendi manna er vanist höfðu hnefaleikum. Full ástæða er því til að stemma á að ósi í þessu efni og banna alla keppni og kennslu í hnefaleik. Bann við hnefaleikum er í rauninni ekki nema skyld og sjálfsögð tilraun til slysavarna.``

Herra forseti. Margir hafa látið að sér kveða í þessu máli og flestir hafa talað því máli að hér ætti að leyfa box. Margir hafa skrifað greinar og ég ætla að vitna, með leyfi forseta, til einnar greinar sem birtist í Morgunblaðinu 10. maí á síðasta ári. Hér skrifar Marteinn B. Björgvinsson. Mig langar, máli mínu stuðnings, að vitna til þess sem hann segir, en hann lagði stund á hnefaleika og talar hér af reynslu og þekkingu:

,,Marteinn Björgvinsson keppti í hnefaleikum á árunum 1944 til 1948. Hann er mjög á móti því að Alþingi Íslendinga leyfi hnefaleika sem keppnisíþrótt hér --- en hvers vegna? ,,Af því að ég er öryrki vegna hnefaleika, hlaut verulegan skaða af hnefaleikum sjálfur, ég hef verið með höfuðverk á hverjum einasta degi í 28 ár og hef þurft að nota mikið af verkjalyfjum og er svo minnislaus að til vandræða horfir. Ný lyf hafa þó minnkað höfuðverkinn á síðustu dögum. Ég veit að út um allan heim eru margslasaðir menn eftir hnefaleikakeppnir og margir hafa látist.````

Í niðurlagi þessarar greinar segir:

,,Voruð þið margir sem æfðuð hnefaleika á þessum árum? ,,Já, þó nokkuð margir. Annars get ekki mikið talað um þetta vegna þess að minnið hjá mér er svo slæmt vegna höfuðhögganna sem ég fékk í hnefaleikunum.`` --- Hefurðu fylgst með hnefaleikum í sjónvarpi? ,,Nei, mjög lítið, mér finnst þetta ekki vera íþrótt heldur slagsmál. Það er ömurlegt að sjá í hringnum þann manninn sem er að tapa og jafnvel lendir í gólfinu, hann getur kannski ekki tjáð sig og beðið andstæðinginn að hætta en augnaráðið biður um vægð. Ég vona að menn skilji hversu hættulegir hnefaleikarnir eru og hvað afleiðingarnar geta verið hræðilegar og leyfi alls ekki hnefaleikakeppnir hér á landi.``

Svo mörg voru þau orð, herra forseti.

Eins og ég sagði í upphafi gengur box út á höfuðhögg. Þar er vísvitandi reynt að lama andstæðinginn svo að hann geti ekki unnið líkt og þegar hann kom fullfrískur inn í hringinn. Menn hafa talað um það sem tvennt ólíkt, keppni og æfingar. Það er rétt. Æfingin gengur út á að annaðhvort berji menn í boxpúða eða menn séu hvor á móti öðrum í léttum æfingum án þess að þar sé kné látið fylgja kviði.

Það kom fram í ræðu hv. þm. Katrínar Fjeldsted að í Bretlandi eru menn alvarlega að hugleiða bann við boxi. Rætt hefur verið um að bráðlega verði lagt fram frv. í breska þinginu þar sem box verði bannað. Í læknisfræðilegum tilvitnunum sem hv. þm. kom inn á í ræðu sinni gat hún þess að allir væru sammála um að berja ekki fyrir neðan beltisstað. Jú, hvers vegna? Vegna þess að þau högg valda skaða á kynfærum. Hv. þm. kom inn á það líka og benti á að alvarlega væri rætt um að banna högg fyrir ofan bringubein. Þannig eru allir meðvitaðir um hversu skaðleg þessi íþrótt er.

Þegar menn tala um höfuðhlífar og segja að þetta sé allt í lagi, sé skaðlaust, þá er það svo, eins og komið hefur verið inn á áður, að höfuðhlífin er til að verja hauskúpuna, til þess að hún verði ekki brotin eða marin. Hins vegar er það ljóst að þessi hlíf kemur ekki í veg fyrir heilaskaða.

Eins og ég gat um hefur í Bretlandi verið boðað frv. um bann við höfuðhöggum og um leið boxi. Þess vegna er sérstakt að nú skuli menn af alvöru taka það upp hér á Íslandi að leyfa box á ný. Og þeir segja: Íslendingar eru einir um það í heiminum að leyfa ekki box. Hvers vegna eigum við að hafa þá sérstöðu?

[12:15]

Við erum á fleygiferð út í hinn stóra heim. Fjarlægðir eru nánast engar orðnar og við viljum allt eða ekkert. Við viljum vera eins og aðrar þjóðir í einu og öllu. En er það nauðsynlegt? Er það kappsmál? Er það einhver minnimáttarkennd í Íslendingum sem veldur því hve fljótt menn vilja breyta um hefðir og karakter? Kannski, en ég er á öðru máli, herra forseti. Ég tel eðlilegt að stíga ekki þetta skref að svo komnu máli. Þegar okkur berast varnaðarorð frá öðrum löndum sem menn vilja hafa sem fyrirmynd, þá tel ég að það sé óeðlilegt að hlaupa til í þessu máli.

Í umræðunni hefur komið fram að það sé ekki hættulegt að stunda þessa íþrótt vegna höfuðhlífa sem menn bera. Þeir tala um ólympíska hnefaleika, að það sé allt annað en hnefaleikar þar sem ekki er notast við höfuðpúða eða hlífar á höfði. Að nokkru leyti er þetta rétt. Þetta er öðruvísi ásýnd, en slysin verða engu að síður og engu að síður skaðast menn á heila þó að þeir noti höfuðhlífar til að verja höfuðið.

Mér þykir líka merkilegt, sem hefur þó ekki komið fram, að konur hafa í vaxandi mæli áhuga á því að iðka box. Hv. þm. og læknir, Katrín Fjeldsted, benti á þá skaðsemi sem konur gætu orðið fyrir. Ekki eru þær að keppa í boxi með brjóstahlífar. Hún bendir á þá skaðsemi sem hnefaleikar geti valdið ungum konum með tilliti til barneigna.

Herra forseti. Ég hef drepið á örfá atriði sem snerta þetta mál og lýst afstöðu minni til málsins. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að flýta okkur hægt í þessu máli, láta árin líða og sjá hvað aðrir gera. Við ættum ekki að taka upp box eins og aðrar þjóðir bara vegna þess að menn vilja nálgast það sem gerist í hinum stóra heimi.