Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 12:19:48 (4662)

2001-02-15 12:19:48# 126. lþ. 71.6 fundur 235. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[12:19]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Það gætti einskis misskilnings í málflutningi mínum hvað áhrærir box eða ólympíska hnefaleika. Þegar talað er um að eðlilegt sé að setja lög og Íþróttasamband Ísland muni hafa eftirlit með hnefaleikum þá er mér alveg ljóst að ÍSÍ getur ekki haft eftirlit með hnefaleikum þannig að enginn meiðist. Það er líka dálítið merkilegt þegar menn segja: Er ekki eðlilegt að setja lög og reglur til þess að fylgjast með boxinu fremur en neðanjarðarstarfsemi fái blómstrað? Hvað með allt annað, hv. þm., sem hér blómstrar og er talið neðanjarðarstarfsemi, t.d. innflutningur á ólöglegum efnum o.fl.? Eigum við að segja: Af því það blómstrar hér neðanjarðarstarfsemi þá er eðlilegt að Alþingi setji lög og reglur þar um? Þetta er náttúrlega aldeilis fráleitt.

Í annan stað vil ég koma að því að það er alltaf verið að vitna til körfubolta, fótbolta og handbolta og sagt að boxið sé nr. 71 eða 80 í röðinni yfir áhættusamar íþróttagreinar. Það er mikill munur á milli annarra íþróttagreina og box eða ólympískra hnefaleika. Þessar tvær íþróttagreinar, ólympískir hnefaleikar eða box, ganga út á að menn meiði hver annan. Þar liggur reginmunurinn. Íþróttamenn sem keppa í handbolta ganga ekki inn á völlin með það að meginmarkmiði að rota andstæðinginn eða meiða hann svo hann liggi óvígur eftir. Það er mikill munur á þessum tveimur íþróttagreinum og aldeilis ófært og mjög sérkennilegt að þeir sem styðja þetta mál skuli halda slíku fram. Það er með ólíkindum.