Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 12:25:43 (4665)

2001-02-15 12:25:43# 126. lþ. 71.6 fundur 235. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[12:25]

Ásta Möller (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson fór hér með langa tölu á móti ólympísku boxi. Ég sá, þegar ég gekk fram hjá ræðustólnum, að hann var með 50 ára gömul plögg í höndunum. Hann var að lesa úr hálfrar aldar gömlu plaggi þar sem rætt var um bann við hnefaleikum hér á landi. Hnefaleikarnir eins og þeir voru stundaðir fyrir hálfri öld voru það sem við mundum kalla atvinnumannahnefaleika. Ég hugsa að ef við, hv. þm. sem erum hér í salnum og fleiri, hefðum verið á þingi þá, þá hefðum við staðið fyrir því að banna þessa hnefaleika. (GHall: Af hverju?) Vegna þess að þeir eru hættulegir.

Ég er hér með fjölmargar greinar úr vísindatímaritum, annars vegar um ólympíska hnefaleika og hins vegar atvinnumannahnefaleika. Ég gæti rakið það og mun hugsanlega gera það á eftir. Það er reginmunur á þessu tvennu --- reginmunur. Þeir hnefaleikar sem Bretar eru í dag að velta fyrir sér að banna eru atvinnumannahnefaleikar, ekki ólympískir hnefaleikar. Við vitum að í atvinnumannahnefaleikum er veruleg hætta á heilsuskaða.

Mig langaði að lesa hér úr umsögn Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands sem barst til menntmn. í mars á síðasta ári. Þar segir Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands:

,,Athygli er vakin á því að frá því að lög um bann við hnefaleika voru sett árið 1956 hafa hnefaleikar tekið miklum breytingum. Og aðskildir hafa verið annars vegar atvinnuhnefaleikar og hins vegar ólympískir hnefaleikar.

Ólympískir hnefaleikar eru viðurkennd íþróttagrein af Alþjóðaólympíunefndinni og í þeirri íþrótt keppt á ólympíuleikum og öllum vestrænum löndum.``

Nokkru síðar segir: ,,Ólympískir hnefaleikar eru ekki skaðlegri heldur en margar aðrar íþróttir, ef litið er til meiðsla og slysa vegna íþróttaiðkunar. Í landinu eru stundaðar ýmsar aðrar íþróttagreinar, svo sem tae kwon do, karate og júdó, sem allar fela í sér bardaga og átök ...`` (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁSJ): Forseti vill áminna hv. þm. um að þegar vitnað er í greinar þá skal biðja um leyfi forseta.)