Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 12:30:20 (4667)

2001-02-15 12:30:20# 126. lþ. 71.6 fundur 235. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[12:30]

Ásta Möller (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þm. ætti nú að koma til nútímans aftur. Vissulega er gott að horfa til sögunnar og gott að vita við hvaða aðstæður hnefaleikar voru bannaðir á sínum tíma. Aðstæður réttlættu það að banna hnefaleika á þeim tíma. Þá var verið að tala um atvinnumannahnefaleika. Við erum að tala um allt annað þegar við nú ræðum um ólympíska hnefaleika.

Mig langar að vísa í grein sem birtist í Morgunblaðinu eftir Guðjón Vilhelm, þjálfara í ólympískum hnefaleikum. Hann svarar akkúrat því sem hv. þm. ræddi um áðan, um hvernig stig eru fengin. Hv. þm. fullyrti hér að stig í ólympískum hnefaleikum væru eingöngu fengin með rothöggi. Það er alrangt. (Gripið fram í.) Guðjón Vilhelm segir, með leyfi forseta:

,,Þú færð stig í ólympískum hnefaleikum fyrir hittni þannig að í hvert skipti sem þú hittir á ákveðið svæði færðu stig. Þessi svæði eru bara á framhlið keppendanna þannig að engin stig eru gefin fyrir að slá menn bak við eyrun eða í þau. Þannig að það er letjandi frekar en hitt að setja kraft í höggið. Þetta er frekar spurning um hraða. Best er að rétt snerta keppinautinn og forða sér fljótt til baka í vörnina. Því ef þú setur kraft í höggið hægir þú á þér og safnar refsistigum þar sem keppinauturinn fær svo gott tækifæri til þess að hitta þig. Tíðni rothögga er því innan við 1% í áhugamannahnefaleikum. Þannig að þessi íþrótt sem við erum að kynna núna er allt önnur en sú sem var bönnuð árið 1956.``

Við fylgdumst með því þegar þetta unga íþróttafólk fór til Bandaríkjanna í síðustu viku. Þetta var glæsilegur hópur, tólf eða fimmtán manns. Það var ekki hægt að sjá á þessum hóp að þar færu sukkarar og svallarar, sem er aðalatriðið í röksemdum þeirra sem eru á móti ólympískum hnefaleikum og ástæða þess að hnefaleikar voru bannaðir á sínum tíma. Þá var talað um að menn ráfuðu um göturnar, berjandi hver annan, þ.e. þeir sem stunduðu hnefaleika eins og þeir voru stundaðir þá. Við erum að tala um allt aðra hluti.