Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 12:32:36 (4668)

2001-02-15 12:32:36# 126. lþ. 71.6 fundur 235. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[12:32]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Ásta Möller kom hér með mjög sérkennilegan punkt í lok ræðu sinnar, þ.e. að þetta hefðu ekki verið sukkarar eða svallarar. Ég hef aldrei nefnt það einu einasta orði og frábið mér því að svona málflutningur sé viðhafður hér. Ég hef aldrei tekið mér þau orð í munn að þetta væru sukkarar eða svallarar, ekki vikið að því einu einasta orði, hv. þm. Ég frábið mér málflutning sem þennan.

Talað er um að ég eigi að líta til nútíðar þar sem nú sé málið allt annað, að allt annað sé að horfa á ólympíska hnefaleika og þeir séu með öðru sniði, þar séu einhver refsistig og menn berji mýkra vegna þess að ef þeir berji fast þá séu gefin refsistig o.s.frv. Hvernig ætli höggið hafi verið sem við horfðum á í beinni útsendingu hér á Íslandi í sumar frá ólympísku hnefaleikunum í Sidney? Þá horfðum við á þegar annað augað gekk út úr keppnismanni. Annað augað stóð út úr honum. Ætli það högg hafi kallað á refsistig? Ætli gefinn hafi verið mínus fyrir að berja augað úr manninum, eða hvað? Hvernig á að gefa refsistig þegar menn liggja kannski nokkrum dögum eftir keppni óvígir með skemmd á heila? Nei, hvar sem menn vilja staðsetja mig í fortíð, nútíð eða framtíð þá er ég þeirrar skoðunar að við eigum að flýta okkur hægt og ekki leyfa ólympíska hnefaleika. Við eigum ekki að gefa leyfi til þess. Við skulum bíða og sjá. Verum minnug þess að stórþjóðir sem menn vilja líta til, eins og Bretland, eru nú farnar að hugsa sinn gang alvarlega. Að sagt er þá mun þar lagt fram frv. mjög bráðlega um bann við (Gripið fram í: Atvinnumanna.) hnefaleikum, (Gripið fram í: Atvinnumanna, atvinnumanna.) ólympískum hnefaleikum, boxi.

(Forseti (ÁSJ): Forseti vill áminna hv. þingmenn um að hafa hljóð í salnum.)