Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 12:38:58 (4671)

2001-02-15 12:38:58# 126. lþ. 71.6 fundur 235. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., DrH
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[12:38]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Lagt hefur verið fram frv. til laga í annað sinn um lögleiðingu ólympískra hnefaleika, um að heimila keppni, sýningar og kennslu í ólympískum hnefaleikum, að heimila sölu og notkun á hnefaleikaglófum og öðrum tækjum sem ætluð eru til þjálfunar í ólympískum hnefaleikum. Og í þriðja lagi að Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands setji reglur um íþróttina. Það tel ég vera mjög mikilvægt vegna þess að það þarf að hafa eftirlit með öllum íþróttagreinum þannig að þær séu stundaðar eftir settum reglum.

Í þessu frv. er gerður skýr greinarmunur á ólympískum hnefaleikum annars vegar sem eru áhugamannahnefaleikar og hins vegar atvinnumannahnefaleikum sem eru m.a. stundaðir í Bandaríkjunum, Bretlandi, Rússlandi og víðar. Á Íslandi hafa hnefaleikar verið bannaðir frá árinu 1956. En fram að þeim tíma voru þeir allnokkuð iðkaðir. Áhugamannahnefaleikar hafa því miður verið ranglega kynntir hér á landi og verið bornir saman við venjulega hnefaleika. Það er í rauninni mjög ósanngjarnt því áhugamannahnefaleikar eru með öruggustu íþróttagreinum sem stundaðar eru í heiminum að mati þeirra sem best þekkja til.

Hnefaleikar hafa verið stundaðir í einhverri mynd í heiminum um árþúsundir. Fundist hafa höggmyndir af hnefaleikamönnum á Krít sem eru taldar vera 3.500--4.000 ára gamlar. Nútímahnefaleikar eru taldir upprunnir á Englandi árið 1681, en þaðan barst íþróttin um allan heim. Keppt hafði verið í hnefaleikum á ólympíuleikunum grísku og var sá lárviðarsveigur eftirsóknarverður. (Gripið fram í.)

Herra forseti. Það er mjög mikill misskilningur að ólympískir hnefaleikar séu ruddaleg íþrótt. Það er t.d. svipað með hnefaleika og skylmingar að báðar þessar íþróttir byggja á hraða og snerpu en ekki ógnarkrafti eins og margir halda. Hér er ekki um að ræða hnefaleika atvinnumanna með 12--15 lotum þar sem keppt er um gríðarlegar fjárhæðir, heldur hnefaleika áhugamanna þar sem loturnar eru þrjár og notaðar eru höfuðhlífar og mýkri hanskar. Öll dómgæsla er mun strangari.

Alvarleg slys eru þekkt í atvinnumannahnefaleikum. En þannig slys hafa ekki orðið í áhugamannahnefaleikum vegna hinna ólíku reglna sem þar gilda. Það er með ólíkindum að menn koma hér fram hver á fætur öðrum og halda öðru fram og eru þá nánast að tala um atvinnuhnefaleika.

Árið 1966 skipaði Norðurlandaráð sérstaka nefnd sem skyldi athuga hvort banna skyldi hnefaleika á Norðurlöndunum. Fjölmargir læknar voru kallaðir til starfa fyrir nefndina í því skyni að rannsaka meiðsl og annað af völdum hnefaleika. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að ekki bæri að leggja bann við þessari íþróttagrein frekar en öðrum. Álit nefndarinnar var að rannsókninni lokinni að meiðsl þau sem hljótast af hnefaleikum væru síst meiri en þau sem íþróttamenn hljóta í öðrum greinum.

Hér eru nokkrar staðreyndir um ólympíska hnefaleika:

Rothögg, eins og hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson ræddi mikið um í sínu máli áðan, eru vart mælanleg. Innan við 1% skráðra bardaga enda með svokölluðu rothöggi. Er það mikið?

Ólympískir hnefaleikar eru nr. 71 á lista yfir tíðni meiðsla í íþróttum, langt fyrir neðan þær íþróttir sem stundaðar eru hér á landi.

Á hverju ári er haldin keppni í ólympískum hnefaleikum í Bandaríkjunum sem heitir Silver Gloves, eða silfurhanskarnir. Þar eru þátttakendur um 2.000 talsins á aldrinu 8--15 ára. Hvað haldið þið að hafi komið upp mörg meiðsli á síðustu átta árum? Engin meiðsl hafa komið upp í þessum keppnum.

Ólympískir hnefaleikar eru alls staðar leyfðir nema á Íslandi. Nú stendur til á Ólympíuleikunum að fjölga boxgreinum og taka inn kvennabox í ljósi lágrar slysatíðni og vinsældar íþróttarinnar. Kannski er hér komin grein sem við þingkonur gætum tekið upp til að keppa í, eins og karlarnir sem eru að keppa í fótbolta.

Svíar hafa rannsakað hnefaleika mikið og völdu til þess færustu sérfræðinga í heilalækningum. Þar voru hnefaleikar bornir saman við knattspyrnu og fimleika og var útkoma hnefaleika hvað meiðsli varðar mjög góð, betri en í knattspyrnunni.

Mig langar til að vitna í grein sem Guðmundur Arason skrifaði í Morgunblaðið 19. nóvember 1995, með leyfi forseta:

,,Hjá öllum þessum aðilum voru hnefaleikar iðkaðir með virðingu fyrir góðri og hollri íþrótt. Allar keppnir sem haldnar voru á þessum árum hlutu góða dóma í blaðaumfjöllun vegna drengilegrar framkomu keppenda og allgóðrar kunnáttu. Hér var fjöldi móta ár hvert og íþrótt þessa iðkaði að staðaldri fjöldi manna. Hnefaleikamenn annarra landa komu til keppni hér og sýningar voru haldnar víða. Aldrei kom fyrir að neinn keppenda slasaðist við æfingar eða keppni í þau tæp 30 ár sem keppt var í hnefaleikum hér, það finnast ekki dæmi þess í slysaskýrslum ÍSÍ.``

Það má geta þess að nefndur Guðmundur Arason er kominn rétt yfir áttrætt og stundar íþróttina í dag. Hann er mjög vel á sig kominn og með allra myndarlegustu mönnum.

Herra forseti. Hnefaleikar eru ein af þeim íþróttum þar sem gerð eru skörp skil á milli áhugamennsku og atvinnumennsku. Íþróttin er eðlileg manninum eins og að ganga og hlaupa. Það hefur fylgt manninum frá ómunatíð að verja sig.

[12:45]

Það hefur komið hér fram að ólympískir hnefaleikar eru með elstu keppnisgreinum sem stundaðar hafa verið á Ólympíuleikunum frá 1904 og með það góðum árangri að til stendur að fjölga í greininni og taka inn hnefaleika fyrir konur á næstu Ólympíuleikum, eins og ég gat um áðan. Íslendingar eru ekki eina þjóðin sem hefur þurft að taka ákvörðun um hvort leyfa skuli þessa íþróttagrein eða ekki. Athyglisvert er að eftir vandlegar yfirferðir hefur niðurstaðan verið sú hjá þeim þjóðum sem hafa verið að íhuga þetta, að það hefur verið leyft vegna þess hve slysatíðnin er lág.

Herra forseti. Ísland er eina landið í heiminum sem hefur bannað hnefaleika og athyglisvert er að engin önnur þjóð hefur fetað í fótspor okkar. Algjört einsdæmi er að ólympísk keppnisgrein sé bönnuð með sérstakri löggjöf. Aðild að Ólympíuleikunum felur í sér viðurkenningu á þeim greinum sem keppt er í á leikunum hverju sinni. Við eigum þess vegna að leyfa ólympíska hnefaleika á ný.

Herra forseti. Það hlýtur að vera í valdi hvers einstaklings að velja og hafna hvaða íþrótt hann vill stunda hverju sinni hvort sem það er teygjustökk, fallhlífarstökk, fótbolti, handbolti, hestaíþróttir eða ólympískir hnefaleikar. Ég tel mjög mikilvægt að þetta frv. til laga nái fram að ganga þannig að hægt verði að setja reglur um ólympíska hnefaleika.