Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 12:47:13 (4672)

2001-02-15 12:47:13# 126. lþ. 71.6 fundur 235. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[12:47]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir rétt að koma aðeins inn á það aftur sem fram kom í máli hv. síðasta ræðumanns um muninn á boxi sem ,,íþrótt`` vegna þess að ég er sammála þeirri skilgreiningu á íþrótt að hún er ekki sú að menn berji hver á öðrum. Skilgreiningin á íþrótt hvað snertir knattspyrnu, körfubolta eða handbolta er að það er íþrótt þar sem lagt er upp með að annað hvort liðið sigri. Menn leggja upp með það í huga. En í boxinu er það höfuðhöggið sem ræður, hvort sem það er mjúkt eða hart, veitir stig eða dregur stig af mönnum, þá er það samt í huga manns að annar hvor keppenda er óvígur eftir, hvort sem það er mælieining, stig eða hvað í boxinu.

Þegar hins vegar verið er að tala um hin miklu slys í knattspyrnunni, að menn hafi fengið fótboltann í höfuðið og séu jafnvel óvígir á eftir, sem sjaldan gerist, þá er munurinn þessi: Þegar viðkomandi knattspyrnumaður gerir sig tilbúinn til að skalla knöttinn þá er bæði hugur og hönd meðvirk um það væntanlega högg sem mun koma. Það er allt annað að fá fótbolta í höfuðið vegna þess að sá sem fær knöttinn í höfuðið er búinn að búa sig undir það sem koma skal. Höfuðhögg af hendi er óvænt þar sem enginn er viðbúinn og þess vegna er það oftar en ekki að það meiðir.