Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 12:50:34 (4674)

2001-02-15 12:50:34# 126. lþ. 71.6 fundur 235. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[12:50]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Munurinn á tveggja mínútna lotum í boxinu og hér í ræðustól Alþingis er nokkur sem betur fer því að hér skiptast menn á orðum og skoðunum en ekki höggum eins og í boxinu.

En það er enginn misskilningur af minni hálfu. Ég er þeirrar skoðunar, hef verið og er að við eigum ekki að ana út í þetta núna. Við skulum sjá hvað aðrar þjóðir eins og Bretar ætla og eru að gera, eins og ég hef sagt hér áður. Ég segi enn og aftur að allar aðrar greinar en box eru íþróttagreinar. Ekki er hægt að kalla það íþrótt sem gengur út á að gera mann og annan óvígan og oftar en ekki fylgir þar nefbrot og annar líkamlegur skaði. Hvers vegna er bannað að slá fyrir neðan beltisstað? Ég hef ekki fengið svar við því hjá hv. þm. Ástu Möller og Drífu Hjartardóttur hvernig þær líta á kvennabox. Hvað finnst þeim t.d. um þá hættu sem konur geta lent í í boxi vegna högga á brjóst? Hvaða afleiðingar hefur það þegar þær eignast börn? Er það allt í lagi? Ég er ansi hræddur um, þó að ég sé ekki menntaður læknir, að það muni eflaust hafa skaðvænleg árhif, eins og boxið hefur til langtíma litið. Verði einhver skaði, eins og hv. þm. kom inn á áðan, þá er keppnisbann í næstu 90 daga. Þá getur það einmitt gerst sem ég óttast og liggur að baki orðum mínum og eru varnaðarorð í þá veru að því miður fylgir heilaskaði of oft þessu boxi. Þótt ekki sé kannski fyrst og fremst verið að berja til óvígis þá eru höfuðhöggin óvænt. Það óvænta í íþróttinni er að koma höggi á andstæðinginn óvænt og þar liggur skilsmunur á milli box og annarra íþrótta.