Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 12:52:44 (4675)

2001-02-15 12:52:44# 126. lþ. 71.6 fundur 235. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., DrH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[12:52]

Drífa Hjartardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ólympískir hnefaleikar snúast um að skora stig og telst sá sigurvegari sem hefur skorað fleiri stig að loknum fjórum tveggja mínútna lotum. En fari annar hvor iðkandi 15 stig fram úr hinum ber dómara að stöðva bardagann. Ekki eru gefin nein aukastig slái annar hinn niður eða roti andstæðinginn og þessi regla er til þess fallin að iðkendur leggi meiri áherslu á hraða og tækni en höggkraft. Minna en 1% allra ólympískra hnefaleikakeppna endar með rothöggi og þetta er ég margbúin að segja hv. þm.

Hvað varðar hættu fyrir konur þá þekki ég það ekki. En sem kona hef ég stundað íþróttir og það er oft ansi harkalega rekist í brjóstin á manni bæði í körfubolta og handbolta, ég tala nú ekki um ef maður dettur af hestbaki.