Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 12:57:52 (4678)

2001-02-15 12:57:52# 126. lþ. 71.6 fundur 235. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[12:57]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það eru engin rök að þetta sé íþrótt til að losna við aukakíló. Það eru margar íþróttir og bara flestar íþróttir og hreyfing sem losar fólk við aukakíló, þetta eru engin rök til að taka inn þessa baráttuaðferð.

Það var sýnt og skýrt fyrir okkur í heilbr.- og trn. í fyrra hvernig þessi íþrótt er iðkuð og það var sýnt að verið er að berja fólk í höfuðið og högg í höfuðið gefa stig. Það er kannski verið að berja mörg högg í höfuðið en aðeins eitt högg gefur stig þannig að það er verið að margberja fólk í höfuðið. Læknar hafa sýnt fram á það að við slík högg fer heilinn á hreyfingu og ýmsar fíntaugar og æðar skaðast við þau högg og sýnt hefur verið fram á ...

(Forseti (ÁSJ): Forseti vill áminna hv. þingmenn um að hafa hljóð í salnum til að þingstörf geti gengið eðilega fyrir sig.)

Já, herra forseti, ég held að full ástæða sé til að við þingmenn, sem höfum gert okkur grein fyrir því hversu hættuleg þessi íþrótt, sem ég vil nú helst ekki kalla íþrótt, er heilsu fólks, ættum nú að taka okkur saman og sjá til þess að þetta mál fari ekki lengra en til nefndar eins og svo mörg önnur mál hér í þinginu sem eru mun merkilegri og meiri framfaramál en þetta.

Varðandi aðferðirnar við að berja fólk í höfuðið þá mun ég berjast gegn því af öllum kröftum --- en þó ekki með því að berja fólk í höfuðið --- að þetta verði leyft á Íslandi.