Atvinnuöryggi fiskverkafólks á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 13:35:53 (4681)

2001-02-15 13:35:53# 126. lþ. 71.94 fundur 304#B atvinnuöryggi fiskverkafólks á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[13:35]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Spurningar hv. þm. ættu sumar að beinast fremur að byggðamálaráðherra heldur en félmrh. Ég get ekki svarað þeim öllum vegna þess að það er ekki í mínu valdi að svara þeim. En ég skal svara því sem ég get og er með puttana á.

Atvinnuleysi í janúar sl. var 1,6%. Það var 1,3% í desember og í janúar í fyrra var það 2,6%. Það er sem sagt 1% minna í janúar í ár en var í fyrra. Ég lét dreifa skrá um stöðuna eins og hún var í gær á atvinnuleysisskránni og þar kemur í ljós að þeir sem skráðir eru í atvinnugreinina Vinnsla sjávarafurða á atvinnuleysisskrá eru 312. Þeir voru 338 um síðustu mánaðamót eins og réttilega kom fram hjá fyrirspyrjanda. Þeim hefur því aðeins fækkað. Hitt er svo rétt að það er enn þá að tínast inn fólk sem er á uppsagnarfresti og kann að fjölga á skránni aftur að einhverju leyti.

Ef við lítum á þennan lista sést að þetta er staðbundinn vandi. Það er fyrst og fremst á þremur, fjórum stöðum sem ástandið er alvarlegt. Ég hef heimsótt þá staði sem verst eru settir og boðið fram það sem við í félmrh. höfum ráð á, þ.e. átaksverkefni eða námskeiðahald. Þessu hefur verið vel tekið. Í Bolungarvík er farið í gang átaksverkefni, einnig námskeið, og þar er sérstakur vinnuhópur að störfum til þess að halda utan um námskeiðahald og átaksverkefnin. Ég hef beðið um tilnefningar í slíkan vinnuhóp frá Vestmannaeyjum, en þar er starfsmenntunarátak í vændum og starfsmaður frá Vinnumálastofnun, þ.e. frá Svæðisvinnumiðlun Suðurlands, verður ráðinn í fullt starf í Vestmannaeyjum til umsýslu og ráðgjafar, en í Vestmannaeyjum er vandinn mestur.

Frá Húsavík eru þær góðu fréttir að líkur eru á að Harðviður hf. hefji starfsemi að nýju, a.m.k. tímabundið til þess að ljúka við óunnið hráefni. Það verður unnið með stuðningi Atvinnuleysistryggingasjóðs sem átaksverkefni og það eru átta störf í þrjá mánuði. Hugmyndir eru uppi um fleiri verkefni þar, m.a. í tengslum við hvalaskoðunina, en hvalaskoðun er mikill vaxtarbroddur í atvinnulífi Húsvíkinga.

Á Ólafsfirði er mér sagt að saltfiskvinnslan sé að fara í gang aftur og þá ætti róðurinn að léttast þar. Á Siglufirði er unnið að því að koma rækjuverksmiðjunni í Pólum aftur í gang. Það mun þó vera nokkuð í land.

Rétt er að hafa í huga að þessi vandi er að sumu leyti heimatilbúinn. Í Bolungarvík er einungis unninn þriðjungur þess afla af botnfiski sem þar er landað, litlu meira en þriðjungur í Vestmannaeyjum og það eru 60 aðkomumenn á fiskiskipum Vestmanneyinga.

Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga hefur möguleika á því að aðstoða eða styrkja fólk við atvinnuháttabreytingu. Ég hef hreyft þeirri hugmynd að binda hluta af kvótanum við sveitarfélögin í sjávarbyggðunum, m.a. með tilliti til þess að unnt sé að tryggja atvinnuöryggi.