Atvinnuöryggi fiskverkafólks á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 13:49:57 (4686)

2001-02-15 13:49:57# 126. lþ. 71.94 fundur 304#B atvinnuöryggi fiskverkafólks á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), KHG
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[13:49]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Það er margt umhugsunarefni í löggjöf sem ræður töluverðu um atvinnuöryggi fiskverkafólks og mér finnst að menn þurfi mjög að huga að því atriði við endurskoðun laganna sem lúta að þessum þætti málsins og m.a. því hvort ástæða er til að heimila áfram útflutning á óunnum fiski án þess að aðilum innan lands sé gefinn kostur á að bjóða í fiskinn og kaupa hann.

Ég vil segja vegna þess sem hér hefur komið fram í spurningum fyrirspyrjanda um hvort komið hafi til tals að auka byggðakvóta, að eitt af þeim verkum sem ný stjórn Byggðastofnunar kom að í upphafi síðasta árs var erfitt atvinnuástand í Hrísey og reyndar sáum við fram á að það yrði erfitt á nokkrum stöðum öðrum á landinu. Það varð því niðurstaða stjórnar að ég ritaði bréf til hæstv. iðnrh. fyrir hönd stjórnar og óskaði eftir því að byggðakvóti yrði aukinn úr 1.500 tonnum í 3.000 tonn. Það er mat okkar að reynslan af úthlutun kvótans hafi sums staðar tekist vel, t.d. á Bíldudal, Þingeyri og Hofsósi og að ástæða sé til að fikra sig áfram á þeirri braut sem þar var lögð. (Gripið fram í.)

Í öðru lagi hefur verið spurt hvort til greina komi að beita styrkjum til að efla nýsköpun í atvinnulífi þar sem atvinnuástand er slæmt. Byggðastofnun hefur verið að kynna sér hvernig að þessum málum er staðið erlendis og það kemur í ljós að nánast alls staðar þar sem við höfum aflað okkur upplýsinga beita stjórnvöld sér fyrir því að veita opinberan stuðning til atvinnusköpunar víða um land í sínum löndum, bæði með styrkjum og hagkvæmu lánsfé. Þetta er til athugunar hjá okkur vegna undirbúnings að tillögugerð að nýrri stefnu í byggðamálum og mér þykir líklegt að við munum leggja til að íslensk stjórnvöld taki upp stefnu af þessu tagi.