Atvinnuöryggi fiskverkafólks á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 13:54:24 (4688)

2001-02-15 13:54:24# 126. lþ. 71.94 fundur 304#B atvinnuöryggi fiskverkafólks á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), ÁJ
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[13:54]

Árni Johnsen:

Herra forseti. Það er grundvallarkrafa sem verður að gera til sjávarútvegsmála og þróunar í þeim efnum að jafnvægi sé á milli veiða og vinnslu, að veiðarnar metti atvinnuþörfina í landinu. Það er grundvallarkrafa sem verður að gera um stefnu.

Fiskvinnsla er erfiðasta vinna landsins. Það eru konur sem vinna hana í ríkustum mæli og ég tek undir að það verður að taka fyrir það eins og verið hefur að unnt sé að senda fólk heim vegna hráefnisskorts án nokkurrar tryggingar. Það er tímabær krafa og verður að ganga eftir.

Ferskfiskútflutningur hefur minnkað til að mynda frá árinu 1999--2000 um liðlega þúsund tonn, úr 33 þús. tonnum í liðlega 31 þús. tonn. Fyrir tíu árum var ferskfiskútflutningurinn um 20% af bolfiskaflanum. Síðasta ár var hann 6--7% þannig að þetta er til betri vegar. Vinnslumagn innan lands hefur verið svipað. Ferskfiskútflutningurinn hefur minnkað en vinnsla í frystitogurum á sjó úti hefur aukist.

Það er mikilvægt að hvetja til atvinnusköpunar heima. Það á að vera siðferðileg skylda útgerðarmanna og annarra atvinnurekenda að reyna allar leiðir og meira til við atvinnusköpun á heimavelli. Boð og bönn eru síðasta úrræðið en átak til fullvinnslu innan lands þarf að ganga fram. Menn bregðast skjótt við og eiga að bregðast skjótt við. Til að mynda hefur það verið gert í Vestmannaeyjum þar sem er mjög sérstök staða vegna þess að eitt öflugasta bolfisksvinnslufyrirtæki landsins brann nánast til kaldra kola. Staðan þar er því sérstök og vonandi tímabundin.

Nú þegar hafa útgerðarmenn sem fram til þessa hafa flutt verulega mikið magn af fiski út brugðist við og stefna að löndun á heimavelli og skapa þar væntanlega tugi starfa á næstunni þannig að þar er líka á réttri leið, herra forseti.