Atvinnuöryggi fiskverkafólks á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 14:01:17 (4691)

2001-02-15 14:01:17# 126. lþ. 71.94 fundur 304#B atvinnuöryggi fiskverkafólks á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), Flm. ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[14:01]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson veifaði plaggi yfir atvinnuleysi 14. febr. 2001 og telur að málshefjandi hafi gert of mikið úr málunum. Ég er alls ekki að gera of mikið úr málunum vegna þess að á bak við þessar tölur er gríðarlegur undirliggjandi vandi, þ.e. óöryggi fiskverkafólks um allt land.

Ég nefndi einnig að þeir sem eru á atvinnuleysisskrá vegna 60 daga reglunnar eru ekki inni í þessum tölum. Ég bendi á það og beini því til hæstv. félmrh. að ég tel að gerðar hafi verið ráðstafanir í þessu samfélagi sem framkalla þennan vanda. Hver er vandinn? Hann er óöryggi. Hvað leiðir sá vandi af sér? Hann leiðir af sér að fólk reynir að fara úr greininni eftir því sem kostur er. Til hvers leiðir það síðan? Það leiðir til þess að það verður að flytja inn fólk frá útlöndum. Það segir sína sögu. Vandinn er gríðarlegur og það þýðir ekki að berja höfðinu við steininn og halda því fram að hér sé um lítið mál að ræða. Hér er um gríðarlega stórt mál að ræða.

Ég benti á að hæstv. félmrh. hefur gert ráðstafanir, t.d. með regluverkinu frá 24. maí 1995, sem leiða til aukins óöryggis í greininni. Þess vegna þurfum við að fá umræðu um þetta, hvort hæstv. ríkisstjórn, þar á meðal hæstv. félmrh., er sýknt og heilagt að gera ráðstafanir og breyta regluverki í þágu atvinnulífsins eins en horfi í engu á afleiðingarnar af þessu, hag fólks og öryggi til að stunda vinnu í landi. Þetta er mergurinn málsins. Ef menn gera ráðstafanir af þessu tagi án þess að gera ráð fyrir afleiðingum sem þessum þá erum við ansi illa stödd í mörgum málaflokkum.