Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 14:26:24 (4696)

2001-02-15 14:26:24# 126. lþ. 71.6 fundur 235. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., ÁJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[14:26]

Árni Johnsen (andsvar):

Herra forseti. Þau atriði sem ég nefndi eiga ekki að koma hv. þm. á óvart. Þeirra var getið í nál. Fyrir menntmn. komu sálfræðingar sem höfðu mikið haft með unglinga að gera. Afstaða þeirra fór ekkert á milli mála.

Varðandi nýyrðið ,,heilaárekstur`` þá kemur það í beinu framhaldi af því að hv. þm. sagði að það væri slæmt þegar heilinn rækist á höfuðkúpuna. Hvað er það annað en árekstur?

Það eru reyndar fleiri nýyrði sem hafa átt um hv. þm., án þess að þau séu útskýrð nánar að þessu sinni. Eitt var orðið ,,gjammi`` vegna sífelldra frammíkalla. Annað var ,,tunguflæði`` sem þingmaðurinn kvartaði undan á sínum tíma. Það mun kannski hafa eitthvað með þennan árekstur að gera sem hér hefur verið nefndur.